Afturelding varð í gær Íslandsmeistari í blaki kvenna í fyrsta sinn – á sinni fyrstu leiktíð í efstu deild kvenna. Liðið vann Þrótt Nes 3-1 í hörkuleik fyrir austan.
Heimalið Þróttar Nes kom sterkt til leiks og vann fyrstu hrinuna næsta auðveldlega 25-15. Afturelding kom til baka í annarri hrinu og jafnaði leikinn með sigri í hrinu 2, 15-25. Þriðja hrinan var æsispennandi. Afturelding var með yfirhöndina til að byrja með en það var allt í járnum eftir að Þróttur Nes jafnaði 20-20. Afturelding vann hrinuna 25-27 og komst því yfir 1-2 í leiknum. Fjórða hrinan var svipuð þeirri þriðju og spennan í lokin var mikil. Afturelding vann hrinuna 22-25 og leikinn 1-3. Þetta var önnur viðureign liðanna í úrslitarimmunni og vann Afturelding rimmuna 2-0 og varð Íslandsmeistari.
Það var því vel tekið á móti Íslandsmeisturum þegar liðið lenti á Reykjavíkurflugvelli síðdegis í gær eftir frækna för austur í Neskaupstað.