20 ára afmæli Lágafellsskóla var haldið með pompi og pragt þriðjudaginn 29. nóvember sl.
Líf og fjör var á afmælisdeginum og var foreldrum og velunnurum boðið í heimsókn á opið hús. Nemendur sýndu afrakstur þemadaga en áhersla þemans var Lágafellsskóli og nærumhverfi. Nokkrir nemendur stigu á stokk í sal skólans og bæði sungu og sýndu leikrit. Boðið var upp á ýmislegt góðgæti og var afmæliskakan vinsælust.
Gríðarlega góð mæting var á afmælishátíðina og fullt út úr dyrum þá tvo tíma sem hún stóð yfir. Ekki var annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel og notið samverunnar.
Lágafellsskóli var stofnaður árið 2001 og vígður 10. nóvember það sama ár. Nemendafjöldi var innan við 300 og starfsmenn rúmlega 40. Í tvígang hefur verið byggt við skólann, áfangi tvö var tekinn í notkun árið 2004 og áfanga þrjú var lokið 2007.
Lágafellsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli og hefur verið frá árinu 2006 þegar samstarf hófst við leikskólann Hulduberg. Lengi vel var um að ræða eina deild fyrir fimm ára nemendur. Árið 2014 tók Höfðaberg til starfa sem útibú frá Lágafellsskóla, í fyrstu voru þar 5 ára leikskólabörn, 1. og 2. bekkur grunnskóla. Smám saman fjölgaði leikskólabörnum á Höfðabergi og nemendum í aðalbyggingu skólans fækkaði. Árið 2021 voru öll grunnskólabörn sameinuð undir einu þaki á ný í aðalbyggingu skólans en á Höfðabergi eru 6 leikskóladeildir þriggja til fimm ára barna.
Nemendafjöldi grunnskólahluta er 611 og á leikskólanum Höfðabergi eru 146 börn. Starfsfólk grunnskóla, leikskóla og frístundar er um 140 talsins.
Tengt efni
Bréf til foreldra vegna vopnaburðar barna og ungmenna
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum í Mosfellsbæ
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum er hafið á félagssvæði Harðar í Mosfellsbæ.
Nóg um að vera í Mosfellsbæ í sumar