Nú hefur verið gert samkomulag um að urðun verði hætt á Álfsnesi á næstu árum og komið verði fyrir gas- og jarðgerðarstöð á næstu 2-3 árum.
Í síðasta tölublaði Mosfellings kom fram að urðun í Álfsnesi yrði hætt. Mosfellingur fékk viðbrögð Íbúasamtaka Leirvogstungu við fréttunum en þau hafa barist gegn lyktarmengun og ónæði frá Sorpu. „Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Mosfellinga, ekki síst íbúa í Leirvogstungu en þar starfa öflug íbúasamtök sem barist hafa hetjulega fyrir þessum stóra áfanga. Þetta er búið að vera baráttumál í langan tíma og Sorpa hefur tekið okkur mjög vel en þeirra aðgerðir og úrbætur hafa einfaldlega ekki dugað hingað til,“ segir Rúnar Þór Guðbrandsson fyrrum formaður íbúasamtakanna.
Ekki einkamál íbúa Leirvogstungu
Nú hefur verið gert samkomulag um að urðun verði hætt á Álfsnesi á næstu árum og komið verði fyrir gas- og jarðgerðarstöð á næstu 2-3 árum.
„Það má teljast ótrúlegt hvað við höfum náð langt í þessari baráttu. Við höfum tekið þetta málefnalega, án þess að hlekkja okkur við sorpbíla eða grípa til annarra þess háttar aðgerða,“ segir Þorkell Magnússon fyrrum stjórnarmaður í samtökunum og segir að um áfangasigur sé að ræða.
Fulltrúar íbúasamtakana hafa þurft að setja sig inn í framkvæmdahliðina og öll lagaákvæði og setið fjölda funda með sérfræðingum. Það má því segja að þau séu orðnir miklir Sorpu-sérfræðingar.
„Við höfum varpað ljósi á þetta vandamál sem er alls ekki einkamál íbúa í Leirvogstungu, heldur er allur Mosfellsbær og Grafarvogur plagaður af þessu, án þess að menn hafi getað sett fingurinn á hvað það var. Rót vandans er Sorpa,“ segir Þorkell. Lyktin finnst víða, en margir átta sig ekki á því hvaða lykt þetta er, eða hvaðan hún kemur. „Lyktin getur verið mismunandi, stundum frá ruslahaugnum og stundum frá risaklósettinu,“ segir Rúnar og á þá við Gými, móttöku fyrir lyktarsterkan úrgang.
Góð samvinna við sveitarstjórnina
„Sveitastjórn Mosfellsbæjar hefur gripið boltann á lofti eftir að þeim varð málið ljóst og hafa þau staðið sig með mikilli prýði að landa þessu máli að fullu. Sú samvinna hefur skilað þessum árangri og þau voru opin fyrir því að vinna faglega að þessu,“ segir Lína Petra Þórarinsdóttir en hún tók nýlega við formennsku íbúasamtakanna.
„Það var eins og æðstu ráðamenn svo sem umhverfisráðherra vissu ekki af þessu, að það væri svona starfsemi nánast inni í höfuðborginni,“ segir Rúnar. Sorpa hefur alltaf sagt að vandamálið verði ekki leyst nema með gas- og jarðgerðarstöð. „Það stóð aldrei til hjá þeim að hætta urðun þarna líka, en við höfum pressað á það að við vildum alla starfsemina burt. Út af þessari pressu kom svo upp að fleiri sveitafélög kæmu að þessu verkefni,“ segir Rúnar.
Alltaf staðið styr um Sorpu á Álfsnesi
Þau benda á að úttekt hafi verið gerð á framtíðarstaðsetningu gas- og jarðgerðarstöðvar með tilliti til hagkvæmni. Hagkvæmast hafi verið að hafa hana í Gufunesi, en þau segja að greinilegt sé að einhverjir aðrir þættir stjórni því að menn vilji hafa hana í Álfsnesi. Þegar urðun í Álfsnesi fór af stað á sínum tíma voru íbúar í Mosfellsbæ því mjög mótfallnir. Þá var lofað að ekki yrði vandamál af foki eða fugli og að starfsleyfi yrði tímabundið. Fulltrúar íbúasamtakanna segja að baráttunni sé ekki lokið, bæjarbúar þurfi að halda áfram að halda Sorpu við efnið og sjá til þess að öll tímaplön standist á næstunni og hvergi verði slegið af.