Sigrún Hjálmtýsdóttir ásamt blásarasextett, í daglegu tali Diddú og drengirnir, halda sína árlegu aðventutónleika í Mosfellskirkju í kvöld, þriðjudaginn 7. desember kl. 20:30.
Efnisskráin er með hefðbundnum hætti, klassískir tónar og jólalög.
Aðventutónleikar Diddúar og drengjanna eru sérstakur tónlistarviðburður í menningarlífi Mosfellsbæjar en tónleikarnir eru nú haldnir þrettánda árið í röð. Á tónleikunum hafa frá upphafi verið frumfluttar umskriftir á klassískum verkum fyrir blásarasextett og sópran en þetta er ekki algeng samsetning hljóðfæra og raddar.
Margir Mosfellingar auk annarra hafa árvisst sótt litlu sveitakirkjuna í Mosfellsdal heim að þessu tilefni, enda eru tónleikarnir í Mosfellskirkju á jólaföstu orðnir ómissandi hluti af undirbúningi fyrir helgihald jóla.
Hljóðfæraleikarar eru Sigurður Ingvi Snorrason og Kjartan Óskarsson sem leika á klarinettur, Emil Friðfinnsson og Þorkell Jóelsson sem leika á horn og á fagott leika Brjánn Ingason og Björn Árnason.
Diddú og drengirnir hafa starfað síðan 1997 og komið reglulega fram á aðventutónleikum í Mosfellskirkju og víða annars staðar. Í júlí síðastliðnum komu Diddú og drengirnir fram á þrennum tónleikum í Alsace héraði í Frakklandi og fluttu fjölbreytta dagskrá með innlendu og erlendu efni. Á einum þessara tónleika kom 50 manna franskur kór fram með hópnum.
Diddú og drengirnir halda tónleika í Christ Church – Chelsea í London mánudaginn 13. desember næstkomandi. Á tónleikunum í London bætist Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari í hópinn sem sérstakur gestur. Á efnisskránni verða íslensk og erlend verk sem tengjast aðventu og jólum.
Miðasala á tónleikana í Mosfellskirkju er í þjónustuveri Mosfellsbæjar. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 525-6700.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið