Á 30 ára afmæli bæjarins árið 2017 var samþykkt af bæjarstjórn að efna til hugmyndasamkeppni um aðkomutákn að bænum og varð tillaga A stúdíó fyrir valinu.
Höfundar vinningstillögunnar eru þau Anna Björg Sigurðardóttir arkitekt og Ari Þorleifsson arkitekt og byggingafræðingur.
Á fundi bæjarráðs 9. maí síðastliðinn var samþykkt að hefjast handa við gerð fyrsta af þremur aðkomutáknum að Mosfellsbæ og verður því fundinn staður við bæjarmörkin hjá Hamrahlíðarskógi. Aðkomutáknin eru gerð úr þremur stöplum úr þrenns konar efniviði, járni, grjóti og tré, og verða stöplarnir misháir í aðkomutáknunum eftir staðsetningu vegna vísunar þeirra til skógar, ár eða fells. Því verður fyrsta aðkomutáknið með hæsta stöpulinn úr tré þar sem staðsetning þess er við Hamrahlíðarskóg.
Í vinnu með höfundum vinningstillögunnar hefur verið ákveðið að merki Mosfellsbæjar verði sett á miðstöpul allra aðkomutáknanna, að led-lýsing verði að baki merkisins og ekki verði reistar sérstakar undirstöður eða hellulögn heldur verði aðkomutáknið látið standa í sínu náttúrulega umhverfi.
Tengt efni
Skapandi umræður á opnum fundi um menningarmál
Um 60 manns tóku þátt í opnum fundi menningar- og lýðræðisnefndar um rými fyrir sköpun og miðlun menningar í Mosfellsbæ sem haldinn var í Hlégarði 28. nóvember.
Sköpum rými
Opinn fundur menningar- og lýðræðisnefndar um rými fyrir sköpun og miðlun menningar í Mosfellsbæ verður haldinn í Hlégarði þriðjudaginn 28. nóvember.
Fögnum fjölbreytileikanum - Regnbogagata máluð í Mosfellsbæ
Í dag, miðvikudaginn 9. ágúst, á 36 ára afmælisdegi Mosfellsbæjar, tóku bæjarstjóri og bæjarfulltrúar til hendinni og máluðu regnbogagötu fyrir framan félagsheimilið Hlégarð.