Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 25.09.2024, að kynna til umsagna skipulagslýsingu aðal- og deiliskipulags í samræmi við 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Áformuð er breyting á aðalskipulagi og gerð deiliskipulagsáætlunar vegna betrumbóta íþrótta- og útivistarsvæðis við sunnanverðan Leiruvog. Skipulagið mun skilgreina betur sambúð íþrótta og útivistar á svæðinu, þ.m.t. stíga, reiðleiða, fjöru og grænna svæða. Allur eystri helmingur Hlíðavallar verður hluti af nýju deiliskipulagi. Skipulagssvæðið er um 28 hektarar og afmarkast gróflega af sjávarfjörum Leiruvogs í norðri, íbúðarbyggð Höfðum, Töngum og Holtum í suðri og austri, og gildandi deiliskipulagi golfvallar á Blikastaðanesi. Á svæðinu, sem er í eigu Mosfellsbæjar, er eystri helmingur Hlíðavallar, 18-holu golfvallar.
Markmið skipulagslýsingar er fyrst og fremst að kynna fyrir íbúum og helstu hagaðilum áform skipulagsins. Þar með talið tilgang, ástæður, áætlun, áhrif, markmið, áform og fyrirhugaða tímalínu ferlis. Skipulagslýsing er fyrsta skref í opnu samráði og mikilvæg upplýsingagjöf. Í verk- og skipulagslýsingu er ekki að finna uppdrætti, tillögur eða útfærslur breytinga eða nýtt skipulag. Slíkt verður kynnt með áberandi hætti á síðari stigum.
Markmið aðal- og deiliskipulags Hlíðavallar er að bæta öryggi iðkenda svæðisins og íbúa sem fara um eða búa í nálægð við golfvöllinn. Endurhanna á brautir og högglínur svo öryggi gangandi, hlaupandi, hjólandi og ríðandi verði betur tryggt. Með breytingu er stefnt að því að stækka íþróttasvæðið til austurs við strandlengjuna svo færa megi brautir og þrengja völlinn.
Umsagnafrestur er til og með 17.11.2024.