Mosfellsbær auglýsir samkvæmt 1. mgr. 41.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að nýju deiliskipulagi og skv. 1. mgr. 43. gr. sömu laga tvær tillögur að breytingum á eldra deiliskipulagi, sem hér segir:
Skólalóð sunnan Þrastarhöfða, nýtt deiliskipulag
Lóðin er næst Baugshlíð sunnan Þrastarhöfða, um 8.000 m2 að stærð. Gert er ráð fyrir að á henni megi reisa allt að 8 færanlegar kennslustofur með tengibyggingum. Gatnatenging verði um núverandi veg sem gengur út úr „Blikastaðavegi.“ Í greinargerð á tillöguuppdrætti kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að starfsemin og byggingarnar muni víkja síðar í tengslum við uppbyggingu Blikastaðahverfis.
Grenndarvöllur við Klapparhlíð – deiliskipulagsbreyting
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Klapparhlíð, sem samþykkt var 10.11.2000 og síðast breytt 31.3.2004. Í tillögunni felst að grenndarvöllurinn verði tekinn tímabundið undir allt að þrjár færanlegar kennslustofur og tilheyrandi tengibyggingar. Skilgreindur er byggingarreitur og settir skilmálar um hæð og umfang bygginganna.
Lóð Lágafellsskóla og leikvöllur við Hjallahlíð, deiliskipulagsbreytingar
Gerð er tillaga um breytingar á þremur deiliskipulagsáætlunum:
- Um byggingarreit fyrir eina færanlega kennslustofu til viðbótar á lóð Lágafells-skóla, sem tilheyrir deiliskipulagi þjónustusvæðis við Lækjarhlíð, upphaflega samþykktu 27.4.2005 og síðast breyttu 11.7.2012.
- Um byggingarreit fyrir allt að þrjár færanlegar kennslustofur með tengibyggingum sem settar yrðu tímabundið á leikvöll við Hjallahlíð. Leikvöllurinn er að hluta innan deiliskipulags Hjallahlíðar (samþykkt 5.3.1997), og að hluta innan deiliskipulags Hulduhlíðar (síðast breytt 2.9.1998).
Á tillöguuppdrætti eru einnig skilmálar um hæð og umfang bygginganna.
Tillögurnar verða til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar Þverholti 2, frá 19. apríl 2013 til og með 31. maí 2013, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal senda þær til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eigi síðar en 31. maí 2013.
17. apríl 2012
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar