Í undirbúningi er tillaga að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Um er að ræða breytingar í Miðbænum, annars vegar á afmörkun hverfisverndar á klapparholtinu Urðum, og hinsvegar stækkun miðbæjarsvæðis að gatnamótum Langatanga og Vesturlandsvegar.
Í undirbúningi er tillaga að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Um er að ræða breytingar í Miðbænum, annars vegar á afmörkun hverfisverndar á klapparholtinu Urðum, og hinsvegar stækkun miðbæjarsvæðis að gatnamótum Langatanga og Vesturlandsvegar.
Þessi áform um breytingar á aðalskipulagi tengjast niðurstöðu vinnu að deiliskipulagi Miðbæjarins, sem staðið hefur yfir undanfarin misseri. Tillaga að deiliskipulaginu er nú að verða fullbúin og er fyrirhugað að hún verði auglýst á næstunni skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Væntanleg deiliskipulagstillaga víkur í nokkrum atriðum frá gildandi aðalskipulagi og er því fyrirhugað að samhliða henni verði auglýst tillaga að breytingum á aðalskipulaginu, þannig að samræmi verði milli aðal- og deiliskipulags.
Fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulaginu eru sem hér segir:
a) Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að lóð fyrir framhaldsskóla verði milli Bjarkarholts og Vesturlandsvegar, næst Langatanga. Vestasti hluti fyrirhugaðrar lóðar er í gildandi aðalskipulagi skilgreindur sem grænt svæði til sérstakra nota (skógrækt). Nauðsynlegt er að breyta þeirri skilgreiningu til að staðurinn geti nýst fyrir framhaldsskóla. Breytingin felst í því að reitur miðsvæðis stækkar til vesturs, að Langatanga, á kostnað græna svæðisins.
b) Skv. tillögu að deiliskipulagi er fyrirhugaður staður fyrir kirkju og menningarhús norðan Háholts, næst vestan Háholts 14. Fyrir liggur niðurstaða hugmyndasamkeppni um hönnun hússins á þessum stað, í jaðri Urðanna sem eru jökulrákaðar grágrýtisklappir með lynggróðri og njóta hverfisverndar skv. gildandi aðalskipulagi. Til að fyrirhuguð bygging komist fyrir á þessum stað, er nauðsynlegt að hún fái að ganga að hluta inn á klapparholtið. Því er lagt til að aðalskipulag breytist þannig að suðurmörk hverfisverndarsvæðis færist norðar (minnkun svæðis um 2.700 m2), en jafnframt að hverfisverndarsvæðið stækki á tveimur stöðum til norðurs um samtals 2.600 m2 til samræmis við deiliskipulagstillöguna.
Tillögur að deiliskipulagi miðbæjar og breytingum á aðalskipulagi hafa að undanförnu verið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd og umhverfisráði og er stefnt að því að fullbúin tillaga að breytingum á aðalskipulagi verði lögð fyrir bæjarstjórn þann 23. september n.k. Hljóti hún samþykki, verður næsta skref í skipulagsferlinu að auglýsa hana skv. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga með 6 vikna athugasemdafresti.