Nýtt deiliskipulag skátalóðar við suðaustanvert Hafravatn, og breytingar á deiliskipulagi vegna hótels að Háholti 7 og vegna lóðar Ísfugls að Reykjavegi 36. Athugasemdafrestur til 18. desember 2009.
Mosfellsbær auglýsir hér með tillögu að deiliskipulagi skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 2 tillögur að breytingum á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 26. gr. sömu laga:
Lóð Skátasambands Reykjavíkur við Hafravatn
Tillaga að deiliskipulagi. Skipulagssvæðið/lóðin er um 4,8 ha, liggur að Hafravatni suðaustanverðu og er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota í aðalskipulagi. Á tillögunni eru sýndir byggingarreitir fyrir 8 gistiskála auk byggingarreita fyrir þjónustuhús og opið skýli, og gerð er grein fyrir aðkomu og bílastæðum.
Háholt 7, Áslákur (endurauglýsing)
Tillaga að breytingum á deiliskipulagi sem samþykkt var 2003. Breytingar felast í því að lóðin stækki úr 5.600 í 8.500 m2, núverandi bygging fyrir hótel hækki um eina hæð og að austan hennar komi bygging fyrir stækkun hótels, 2 hæðir og ris með kjallara undir, sem verði að hluta bílageymsla og að hluta salarkynni hótels. Hámarksnýtingarhlutfall verði 0,6. Breyting frá áður auglýstri tillögu felst í því að fyrirhugaðar nýbyggingar lækka í landi um 2 m.
Reykjavegur 36
Tillaga að breytingum á deiliskipulagi frá 2005. Skv. tillögunni breytist lögun lóðarinnar og hún minnkar um 750 m2, byggingarreitur stækkar og leyft nýtingarhlutfall hækkar úr 0,30 í 0,39.
Tillöguuppdrættir með greinargerðum og skipulagsskilmálum verða til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 1. hæð, frá 6. nóvember 2009 til 18. desember 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér tillögurnar og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar er einnig birtar hér á heimasíðunni, sbr. tenglana hér að ofan.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og hafa borist skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar eigi síðar en 18. desember 2009. Hver sá sem ekki gerir athugasemd við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
2. nóvember 2009,
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar