Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og nýtt deiliskipulag skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga.
Áætlanir voru kynntar á íbúafundi í Helgafellsskóla þann 14. október 2021.
Aðalskipulag í Helgafellshverfi 302-Íb
Breytingin felur í sér að fjölga leyfilegum íbúðum í suðurhlíðum Helgafells úr 940 í 1.150. Breytingin einkennist af uppfærslu í töflu greinargerðar gildandi aðalskipulags. Breytingin er í samræmi við uppbyggingu svæðisins sem hefur einkennst af fjölbreyttari húsakosti innan hverfisins í formi aukins framboðs smærri eigna. Tillagan er framsett með greinargerð.
Deiliskipulag 5. áfanga Helgafellshverfis
Nýr áfangi Helgafellshverfis er á um 8,5 ha svæði í eigu sveitarfélagsins austast í hverfinu, norðan nýs Skammadalsvegar. Hið nýja hverfi tengist um hringtorg Gerplustrætis, Vefarastrætis og Skammadalsvegar. Hverfið einkennist af blandaðri byggð fjölbýlis-, rað-, par- og einbýlishúsa. Ráðgerðar eru 151 íbúð á svæðinu þar af 5 í sérstökum búsetukjarna fyrir fatlaða. Svæðið tengist aðalstíg samgangna gangandi og hjólandi sem og annarra útivistarstíga á svæðinu. Tillagan er framsett á deiliskipulagsuppdrætti, skýringaruppdrætti og með greinargerð.
Gögn eru aðgengileg á vef Mosfellsbæjar og á upplýsingatorgi, Þverholti 2 svo þau sem vilja get kynnt sér tillögur og gert við þær athugasemdir. Aðalskipulagstillaga er einnig á skrifstofum Skipulagsstofnunar að Borgartúni 7b, 105 Reykjavík. Tillagan hefur verið kynnt bæði í Mosfellingi og Lögbirtingablaðinu. Athugasemdir skulu vera skriflegar ásamt helstu upplýsingum og kennitölu sendanda. Senda skal þær skipulagsnefnd Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbær, eða í tölvupósti á skipulag[hja]mos.is.
Athugasemdafrestur er frá 28. október til og með 12. desember 2021.
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar