Um er að ræða óverulega breytingu á svæðisskipulagi, sem fær málsmeðferð skv. 2. mgr. 14. gr. s/b-laga, en breyting á aðalskipulagi fær málsmeðferð skv. 1. mgr. 21. gr. Athugasemdafrestur er til og með 9. febrúar 2011.
Mosfellsbær auglýsir hér með skv. 2. mgr. 14. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tillögu að óverulegum breytingum á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 og skv. 1. mgr. 21. gr. sömu laga tillögu að breytingum á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Tillögurnar tengjast áformum um byggingu sérhæfðrar heilbrigðisstofnunar og hótels í tengslum við hana á rúmlega 6 ha reit í Sólvallalandi skammt norður af Hafravatni.
Í tillögu að breytingu á svæðisskipulagi felst að á þéttbýlisuppdrætti er skilgreindur um 6,5 ha nýr reitur fyrir blandaða byggð í Sólvallalandi, og að áætluð heildaraukning atvinnuhúsnæðis í Mosfellsbæ 2001- 2024 skv. töflu 3.2 í greinargerð svæðisskipulagsins vex um 32.000 m2 og verður 230.000 m2.
Í tillögu að breytingu á aðalskipulagi felst að hluti opins óbyggðs svæðis austan væntanlegs Kóngsvegar (áður Hafravatnsvegar), sunnan Bjargsvegar, breytist í svæði fyrir þjónustustofnanir, 6,2 ha að stærð, með gatnatengingu við Bjargsveg. Í greinargerð með tillögunni er fjallað nánar um aðstæður á svæðinu og væntanleg umhverfisáhrif breytingarinnar.
Ekki er settur sérstakur athugasemdafrestur vegna tillögu að óverulegri breytingu á svæðisskipulagi, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr 73/1997, en frestur til að gera athugasemdir við ofangreinda tillögu að breytingum á aðalskipulagi er 6 vikur, eða til og með 9. febrúar 2011. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal þeim skilað til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ. Hver sá sem ekki gerir athugasemd við tillöguna innan þessa frests telst vera henni samþykkur.
21. desember 2010,
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar