Á golfvelli er fyrirhugaður golfskáli færður vestar og bílastæði skilgreind. Fyrir Leirvogstunguhverfi er lagt til að ný gata komi austan Kvíslartungu og hverfið með því stækkað til austurs. Athugasemdafrestur er til 30. október.
Mosfellsbær auglýsir hér með skv. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftirtaldar tvær tillögur að breytingum á deiliskipulagi:
Leirvogstunga, stækkun til austurs
Tillagan er um nýja götu austan við Kvíslartungu þar sem verði 2-ja hæða fjórbýlis- og parhús og tvö einnar hæðar einbýlishús austan götunnar, en einnar hæðar rað- og parhús vestan hennar, næst lóðum við Kvíslartungu. Alls 38 íbúðir.
Golfvöllur Blikastaðanesi, færsla golfskála, bílastæði og bráðabirgðaaðkoma
Lagt er til að lóð og byggingarreitur golfskála færist til vesturs miðað við gildandi skipulag. Þá er skipulagssvæðið stækkað til suðurs vestan lóða við Þrastarhöfða og þar sýnd um 130 bílastæði fyrir golfvöllinn og bráðabirgðaaðkoma að þeim um land, sem er framtíðar íbúðarsvæði.
Ofangreindar tillögur verða til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar Þverholti 2, frá 18. september 2015 til og með 30. október 2015, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal senda þær til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eigi síðar en 30. október 2015.
15. september 2015,
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar