Vegna áforma um sérhæfða heilbrigðisstofnun og hótel í tengslum við hana á reit í eigu bæjarins úr landi Sólvalla, er í bígerð tillaga að breytingu á aðalskipulagi.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar leggur til að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 verði breytt vegna áforma um sérhæfða heilbrigðisstofnun og hótel í tengslum við hana. Meginbreytingin felst í því að skilgreint er nýtt um 6,2 ha svæði fyrir þjónustustofnanir í Sólvallalandi sunnan Bjargsvegar skammt norðan Hafravatns.
Staðhættir
Umræddur hluti Sólvallalands er lítt gróinn melur sem hallar til norð-austurs. Austan svæðisins mun Hafravatnsvegur (Kóngsvegur) liggja samkvæmt gildandi aðalskipulagi.
Aðkoma að svæðinu er fyrirhuguð frá Bjargsvegi sem liggur norðan lóðarinnar þar sem hann tengist Hafravatnsvegi. Svæðið er í um 2,4 km fjarlægð frá miðbæ Mosfellsbæjar og er í góðum tengslum við meginumferðarkerfið í Mosfellsbæ.
Gildandi skipulag
Svæðisskipulag: Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001 – 2024 sem staðfest var 19. 12. 2002 er umrætt svæði í Sólvallalandi sunnan Bjargsvegar og austan fyrirhugaðrar legu Hafravatnsvegar skilgreint sem blönduð byggð eftir 2024.
Í tillögu að breyttu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, sem auglýst verður samhliða þessari breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024, er afmarkaður byggðarreitur fyrir svæði fyrir þjónustustofnanir í landi Sólvalla vestan Akra, um 6,5 ha að stærð. Samkvæmt breyttri töflu 3.2 í greinargerð svæðisskipulagsins er áætlað að á tímabilinu 1998 – 2024 aukist atvinnuhúsnæði í Mosfellsbæ um 230 þús. m², en það er 32 þús. m² meiri aukning en gert er ráð fyrir í óbreyttu svæðisskipulagi. Viðbótaraukningin flokkast öll sem „sérhæfðar byggingar“.
Aðal- og deiliskipulag: Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 – 2024 er svæðið í Sólvallalandi sunnan Bjargsvegar skilgreint sem opið, óbyggt svæði.
Breyting á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024
Breytingar á uppdrætti og greinargerð felast í eftirfarandi:
Skilgreindur er nýr 6,2 ha byggðarfleki fyrir þjónustustofnanir í Sólvallalandi sunnan Bjargsvegar og vestan fyrirhugaðrar legu Hafravatnsvegar á kostnað opins óbyggðs svæðis.
Umhverfisáhrif
Tillagan felur ekki í sér neinar breytingar á áður samþykktum áætlunum um framkvæmdir, sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum skv. viðaukum við lög nr. 106/2000, s.s. um stofnvegi eða tengibrautir. Hún fellur því ekki undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.
Samkvæmt skráningu Þjóðminjasafns frá 2001 (Mosfellsbær, fornleifaskráning, bráðabirgðaskýrsla) eru engar þekktar fornminjar á svæðinu.
Tilkoma atvinnuhúsnæðis sunnan núverandi og fyrirhugaðrar byggðar í Reykjahverfi mun hafa í för með sér aukna umferð og er því framlenging Kóngsvegar samkvæmt svæðis- og aðalskipulagi frá Reykjalundarvegi að sjúkrahúslóðinni nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingunni. Sjúkrahúsið mun þannig hafa beina tengingu við stofnbraut og ekki valda umferðarvandamálum í nálægum hverfum.
Breytingin er talin hafa jákvæð áhrif á samfélagið þar sem hún stuðlar að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og fjölgun starfa í bæjarfélaginu. Hún er ekki talin hafa í för með sér umtalsverð áhrif á andrúmsloft, vistkerfi, heilsu eða öryggi.