Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur í Mosfellsbæ líkt og verið hefur síðustu fimmtíu ár.
Frá árinu 1964 hafa Mosfellingar haldið upp á daginn í heimabyggð. Það árið urðu vatnaskil í íþrótta- og menningarlífi í sveitinni þar sem Varmárlaugin var vígð og Skólahljómsveitin kom fram í fyrsta sinn. Af þessu tilefni hefjast hátíðarhöldin í ár við bakka Varmárlaugar. Þar kemur Skólahljómsveitin fram undir stjórn Daða Þórs Einarssonar. Birgir D. Sveinsson, stjórnandi hljómsveitarinnar fyrstu fjörutíu starfsár hennar tekur til máls, börn úr Sunddeild Aftureldingar stinga sér til sunds og Bjarki Bjarnason segir frá sögulegri sundmenningu í Mosfellsbæ. Einnig verður glens og gaman í lauginni með koddaslag og boðið verður upp á pylsur og gos.
Af mörgu er að taka í glæsilegri dagskrá en íbúar eru hvattir til að mæta á Miðbæjartorgið og taka þátt í skrúðgöngu þar sem Skólahljómsveitin spilar undir og Skátafélagar úr Mosverjum bera fána. Frá Miðbæjartorginu verður gengið að Hlégarðstúninu þar sem Fjallkonan fríð ávarpar samkomuna og flutt verður hátíðarræða. Þá tekur við skemmtidagskrá og síðar verður keppt um titilinn sterkasti maður Íslands.
Fólk er hvatt til að skilja bíla sína eftir heima eða gæta þess ella að leggja í merkt bílastæði, svo sem við Kjarna eða Varmá.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið