Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að kynna skipulagslýsingu fyrir nýja íbúðabyggð að Blikastöðum. Um er að ræða 1. áfanga svæðisins.
Á Blikastöðum er fyrirhuguð ný og spennandi heildstæð íbúðabyggð sem mun tengja betur Mosfellsbæ við höfuðborgarsvæðið með áherslu á bættar almenningssamgöngur með tilkomu Borgarlínu. Svæðið er vel í sveit sett milli Úlfarsfells og fjöru Blikastaðakróar, þar sem hönnun mun taka mið af gæðum landsins og fjölbreyttum tækifærum fyrir nýja íbúa að stunda þá útivist sem Mosfellsbær og staðsetning Blikastaðalands hefur upp á að bjóða. Áhersla verður á samspil byggðar og náttúru, fjölbreyttar samgöngur, blágrænar ofanvatnslausnir, samfélagsleg gæði, gæði byggðar og spennandi uppbyggingu við Blikastaðabæinn.
Tilgangur með gerð lýsingar er að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila að skipulagsferlinu á fyrstu stigum þess, auka gagnsæi, tryggja betra upplýsingaflæði, skila betri og markvissari skipulagsvinnu og gefa sveitarstjórnum og þeim sem koma að ferlinu betri yfirsýn allt frá fyrstu skrefum.
Lýsinguna sjálfa og frekari upplýsingar má finna í skipulagsgáttinni.
Umsagnir skulu berast með rafrænum hætti í gegnum gáttina.
Umsagnafrestur er til og með 15. janúar 2024.