Úthlutunarreglur vegna byggingarlóða í Mosfellsbæ.
1. gr. Gildissvið og hlutverk bæjarráðs
Bæjarráð Mosfellsbæjar úthlutar byggingarlóðum og byggingarrétti samkvæmt reglum þessum.
Úthlutunarreglur þessar gilda við úthlutun leigulóða og sölu byggingarréttar á lóðum í eigu Mosfellsbæjar. Þær gilda ekki þegar um sölu á lóðunum sjálfum er að ræða. Aðeins má víkja frá reglum þessum með ákvörðun bæjarráðs.
2. gr. Auglýsingar og úthlutunarskilmálar
Allar byggingarlóðir skulu að jafnaði auglýstar lausar til umsóknar áður en þeim er úthlutað. Auglýsing um lausar lóðir skal birtast þar sem Mosfellsbær birtir opinberar tilkynningar sínar, s.s. í staðarblöðum og á heimasíðu bæjarins. Bæjarráði er einungis heimilt að úthluta lóðum án auglýsingar í sérstökum tilvikum og ef málefnaleg rök mæla með því.
Áður en að byggingarlóðir eru auglýstar lausar til umsóknar skal bæjarráð samþykkja úthlutunarskilmála er skilgreina réttindi og skyldur lóðarumsækjenda. Úthlutunarskilmálarnir skulu auglýstir samhliða lóðunum sjálfum og vera aðgengilegir á heimasíðu bæjarins.
Ef lóðum er úthlutað með sérstöku samkomulagi til einstakra aðila geta úthlutunarskilmálar verði hluti af samkomulagi aðila.
3. gr. Umsækjendur
Heimilt er að úthluta lóðum til íslenskra ríkisborgara og annarra þeirra sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna með síðari breytingum.
Umsækjendur skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Einstaklingar skulu vera 18 ára eða eldri á umsóknardegi.
- Umsækjandi má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum, hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga eða árangurslaust fjárnám hafa verið gert hjá honum á undanförnum þremur árum fyrir umsóknardag.
- Umsækjendur skulu geta sýnt fram á að þeir hafi fjárhagslega getu til að standa undir kostnaði við öflun lóðar og byggingu mannvirkja í samræmi við þau viðmið sem bæjarráð setur hverju sinni í úthlutunarskilmálum.
- Umsækjandi skal vera í skilum með opinber gjöld, lífeyrissjóðsgjöld og sambærileg lögákveðin gjöld á umsóknardegi.
Mosfellsbæ er heimilt að krefjast gagna til staðfestu því að framangreind skilyrði séu uppfyllt, s.s. greiðslumats eða annarrar skriflegrar staðfestingar frá fjármálastofnun um greiðsluhæfi og mögulega lánafyrirgreiðslu vegna fyrirhugaðra lóðakaupa og húsbyggingar, ársreikninga, sem skulu að jafnaði vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda án fyrirvara og/eða skattframtala. Jafnframt er Mosfellsbæ heimilt að kalla eftir staðfestingum á því að umsækjandi sé í skilum með gjöld samkvæmt 4) lið hér á undan.
Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir úthlutun lóða í úthlutunarskilmála hverju sinni. Í úthlutunarskilmálum skal einnig taka afstöðu til þess hvaða gagna er krafist.
Ef tveir eða fleiri sækja saman um lóð, skulu þeir báðir/allir uppfylla skilyrði reglna þessara. Jafnframt skulu þeir báðir/allir bera óskipta ábyrgð (in solidum) á greiðslum framkvæmdum og öðrum skuldbindingum viðkomandi lóðar, fái þeir lóð úthlutað lóð.
Reynist umsækjendur ekki uppfylla skilyrði fyrir úthlutun lóðar samkvæmt framangreindu skal ekki verða við umsókn.
4. gr. Umsóknir
Sækja skal um lóðir sem auglýstar hafa verið lausar til umsóknar á þar til gerðu eyðublaði eða með þeim öðrum hætti sem tilgreindur kann að vera í úthlutunarskilmálum. Umsókn skal skila til Mosfellsbæjar ásamt umbeðnum fylgiskjölum. Heimilt er að skila umsóknum með rafrænum hætti á netfang bæjarins eins og það er tilgreint í auglýsingu hverju sinni.
Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða má aðeins annað þeirra leggja inn umsókn, eða þau mega leggja inn eina umsókn í nafni beggja.
Reynist umsókn ekki fyllt í samræmi við fyrirmæli í auglýsingu eða úthlutunarskilmálum skal gefa umsækjanda skamman frest til að bæta úr. Verði ekki bætt úr innan þess frests sem gefin er, skal ekki verða við umsókn.
Með undirritun umsækjanda á lóðarumsókn felst viðurkenning hans á því, að hann hafi kynnt sér reglur þessar og þá aðra skilmála og reglur sem um lóðarúthlutunina og viðkomandi lóðir gilda og sé reiðubúinn að hlíta þeim.
5. gr. Úthlutun lóða
Umsóknir um lóðir skulu lagðar fyrir bæjarráð til samþykktar. Umsækjanda skal tilkynnt um niðurstöðu bæjarráðs.
Val á umsækjendum skal byggjast á þeim valforsendum sem tilgreinar eru í úthlutunarskilmálum. Gæta skal jafnræðis og samræmis við afgreiðslu umsókna.
Ef fleiri umsóknir berast um tiltekna lóð sem auglýst hefur verið, og ekki reynist unnt að gera upp á milli umsækjenda með málefnalegum og hlutlægum hætti í samræmi við valforsendur úthlutunarskilmála, skal að jafnaði sá ganga fyrir sem sótti fyrst um lóðina. Ef hins vegar auglýsing um lóð tilgreinir að sækja skuli um lóðir fyrir tiltekin lokafrest, og ekki reynist unnt að gera upp á milli fleiri umsækjenda með framangreindum hætti, skal dregið um það hverjum verður gefinn kostur á lóðinni. Um fyrirkomulag útdráttar skal kveða nánar á um í úthlutunarskilmálum.
Um úthlutunarfyrirkomulag hverju sinni, gjöld fyrir hverja lóð, gjalddaga þeirra, greiðsluskilmála, veðheimildir, afturköllun, útgáfu lóðarleigusamninga, tímamörk framkvæmda og önnur atriði í tengslum við úthlutun lóða og framkvæmdir á þeim skal kveðið á um í úthlutunarskilmálum hverju sinni.
6. gr. Almenn ákvæði
Lóðarhafa er óheimilt að afhenda, veðsetja eða framselja lóð sem hann hefur fengið úthlutað til áður en lóðarleigusamningur hefur verið gerður, án skriflegs samþykkis Mosfellsbæjar.
Ekki er heimilt að skila lóð, sem hefur verið úthlutað, nema með skriflegu samþykki Mosfellsbæjar.
Komi í ljós eftir úthlutun lóðar að gefnar hafi verið rangar upplýsingar við umsókn, eða úthlutun hafi að öðru leyti farið fram á röngum forsendum, er heimilt að afturkalla úthlutun lóðarinnar. Jafnframt er heimilt að afturkalla úthlutun lóða við vanskil á gjöldum. Nánar skal kveðið á um heimild til afturköllunar lóða í úthlutunarskilmálum.
Fara skal með gögn og upplýsingar sem undanþegin eru upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum sem trúnaðarmál.
Reglur þessar öðlast gildi við samþykki þeirra í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og þá falla jafnframt úr gildi núgildandi reglur um úthlutun byggingarlóða í Mosfellsbæ sem samþykktar voru á 429. fundi Bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 2. nóvember 2005.
Reglur þessar voru samþykktar á 1306. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 11. maí 2017 og staðfestar á 695. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 17. maí 2017.