Vetrarhátíð verður haldin dagana 1. – 3. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þremur meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljóslistaverkum.
Álafoss verður sveipaður fjólubláum bjarma alla daga hátíðarinnar, og tilvalið að gera sér ferð þangað í rökkrinu.
Fimmtudaginn 1. febrúar fer Sundlaugarnótt fram í Lágafellslaug. Frítt er í sund kl. 17:00 – 22:00 og stórskemmtileg dagskrá. Plötusnúður heldur uppi stuðinu, Wipeout brautin er til staðar, Blaðrarinn gleður börn með blöðrum, Íþróttaálfurinn og Solla stirða kíkja í heimsókn og Aqua Zumba fyrir krakka í útilauginni. Að lokinni góðri sundferð eru börnin leyst út með ís.
Notaleg stemning mun ráða ríkjum á Safnanótt í Bókasafni Mosfellsbæjar föstudaginn 2. febrúar. Börnum er boðið að koma með gömlu bækurnar sínar og velja sér aðrar í staðinn á Litla skiptibókamarkaðnum. Mikilvægt er að bækurnar séu vel með farnar og hreinar. Markaðurinn verður einnig opinn laugardaginn 3. febrúar kl. 12:00 – 16:00.
Milli kl. 16:30 og 18:30 mæta Spilavinir með fangið fullt af spennandi spilum og bjóða upp á notalega spilastund í safninu fyrir alla fjölskylduna.
Kl. 17:00 kennir Hera Sigurðardóttir gestum safnsins að hnýta lauf með Macramé-hnúta aðferðinni. Hentar fullorðnum og börnum frá 8 ára aldri. Þátttaka er ókeypis en skráning nauðsynleg. Skrá má þátttöku með því að senda tölvupóst á bokasafn@mos.is.
Í Listasal Mosfellsbæjar er síðasti sýningardagur sýningarinnar „I think, therefore I am fucked“ eftir listmálarann Jakob Veigar Sigurðsson. Sýningin er opin til kl. 20 á Safnanótt.
Tengt efni
Safnanótt 2023 með pompi og pragt
Safnanótt var haldin hátíðleg í Bókasafni Mosfellsbæjar föstudaginn 3. febrúar.
Gleðilega vetrarhátíð 2022
Álafoss í töfrabirtu í rökkrinu næstu daga.
Frítt í Safnanæturvagna Strætó 7. febrúar 2020
Hin árlega Safnanótt verður haldin föstudaginn 7. febrúar og er hún hluti af Vetrarhátíð sem er haldin í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.