Vetraráætlun Strætó hefur nú tekið gildi sem þýðir að tíðni ferða eykst á ný og verður svipuð og síðastliðinn vetur.
Jafnframt breytist akstur um Grafarvog og Grafarholt nokkuð með nýrri vetraráætlun að því er fram kemur í tilkynningu frá Strætó Bs.
Tíðni strætóferða eykst á níu strætóleiðum með nýrri vetraráætlun. Leiðir 2, 3, 4, 11, 12, 14 og 15 aka nú á 15 mínútna tíðni á annatíma (6:30 – 9:00 og 14:00 – 18:00) á virkum dögum í stað 30 mínútna tíðni í sumar, og leiðir 1 og 6 aka á 15 mínútna tíðni frá kl. 6:30 til kl. 18 á virkum dögum.
Árstíðabundnar breytingar á akstri Strætó fylgja eftirspurn, því jafnan dregur úr notkun strætó yfir sumartímann þegar skólar eru ekki starfandi og fólk tekur sumarfrí. Eftirspurnin eykst á ný upp úr miðjum ágústmánuði sem er mætt með aukinni tíðni ferða yfir veturinn.
Með nýrri vetraráætlun breytist jafnframt akstur um Grafarvog og Grafarholt nokkuð, því héðan í frá mun leið 6 tengja saman flest hverfi Grafarvogs og fara um Borga- og Staðahverfi á 15 mínútna fresti á virkum dögum en á 30 mínútna fresti á kvöldin og um helgar. Leið 6 mun jafnframt aka um Grafarholtið á kvöldin og um helgar og þannig tengja hverfið við nánast allt frístundastarf í Grafarvogi á þeim tímum. Leiðir 31 og 32 sem áður keyrðu um Grafarvoginn munu hins vegar hætta akstri. Þessar breytingar í Grafarvogi voru unnar af þverpólitískum vinnuhópi og voru kynntar fyrir íbúum svæðisins á íbúafundi þann 14. janúar 2010. Taka ber fram að leið 26 mun áfram veita sömu þjónustu í Grafarvogi og Grafarholti og síðasta vetur.
„Talningar okkar síðustu árin hafa sýnt að farþegar í Grafarvogi hafa notað leið 6 mun meira en 31 og 32, jafnvel þótt þeir hafi þurft að ganga lengra í strætó. Því er farin þessi leið að færa leið 6 nær íbúum hverfisins, sem hefur það m.a. í för með sér að aksturstíðni um hverfið eykst á dagtíma og börn geta ferðast um hverfið til frístundastarfs án þess að skipta um vagn. Breytingarnar fela ekki í sér sparnað fyrir Strætó en það er von okkar að með þessu sé þjónustan betur sniðin að þörfum íbúa Grafarvogs,“ segir Einar Kristjánsson, sviðsstjóri skipulags- og þróunarsviðs Strætó bs.
Nánari upplýsingar um sumaráætlunina er að finna á vef Strætó og í síma 540-2700. Nýjar leiðabækur eru fáanlegar á öllum sölustöðum.