Strætó bs. hagnaðist á síðasta ári um 296 milljónir króna eftir fjármagnsliði en hagnaður af reglulegri starfsemi nam rúmum 400 milljónum.
Verulegur viðsnúningur hefur orðið á neikvæðri stöðu eigin fjár og er eigið fé neikvætt í árslok um 150 milljónir króna, en var neikvætt um 638 milljónir í lok árs 2008. Þetta kom fram á síðasta stjórnarfundi en þá var ársreikningur byggðasamlagsins fyrir árið 2009 tekinn fyrir og samþykktur.
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að algjör viðsnúningur hafi orðið í rekstri og eiginfjárstöðu byggðasamlagsins á liðnu ári. „Nú er mikilvægt að sveitarfélögin standi vörð um þá jákvæðu þróun sem orðið hefur í rekstri samlagsins að undanförnu og að stefnt verði að því að staða eigin fjár verði orðin viðunandi á allra næstu misserum,“ segir Reynir.
Hann segir að þessi góða afkoma síðasta árs geri að verkum að hægt sé að halda uppi óbreyttu þjónustustigi þrátt fyrir kostnaðarverðshækkarnir sem m.a. skýrast af áframhaldandi mikilli verðbólgu, veiku gengi krónunnar og erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna sem munu ekki þurfa að auka framlög sín til byggðasamlagsins. „Áætlanir ársins 2010 eru byggðar upp með þetta í huga – og þannig má segja að góð afkoma ársins 2009 fjármagni að hluta rekstur ársins 2010. Þegar áföllin verða höfum við örlítið svigrúm til að bregðast við,“ segir Reynir.
Það sem hins vegar ógnar rekstrinum á þessu ári eru nýafstaðnar skattkerfisbreytingar, sem voru ekki fyrirséðar þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 var samþykkt – en áætlað er að áhrif breytinganna nemi um 50 milljónum króna á árinu. Þar vegur þyngst hækkun tryggingagjalds og upptaka kolefnisgjalds – og þar á eftir hækkun virðisaukaskatts, olíugjalds og bifreiðagjalda. Aukin verðbólga og hækkun gasolíuverðs á heimsmarkaði setur einnig stórt strik í reikninginn. Verðbólguhraði og vaxtastig eru sömuleiðis áhyggjuefni, að ógleymdri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Álftaness. Framangreindar breytingar leiða til ákveðinnar óvissu í fjárhagsáætlun Strætó bs. fyrir árið 2010 og er gert ráð fyrir að heildaráhrif þeirra nemi ekki minna en 75 – 80 milljónum króna á árinu. Því er ljóst að rekstur félagsins verður áfram nokkuð þungur.