Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, fór fram um síðustu helgi.
Eru þátttakendur sem og skipuleggjendur almennt sammála um að hátíðin í ár hafi verið sú best heppnaða til þessa. Þátttaka bæjarbúa var með eindæmum góð og setti það svip sinn á hátiðina. Bærinn iðaði af lífi alla helgina og var nánast hvert einasta hús í bænum skreytt í hverfislitunum.
Ágætisþátttaka var í skrúðgöngunni á föstudagskvöld og hátíðarstemmning við varðeldinn í Ullarnesbrekkum fram eftir kvöldi. Varmársvæðið spriklaði allt af lífi allan laugardaginn og var stanslaus traffík á báða útimarkaðina, í Álafosskvos og Mosfellsdal, allan daginn. Þúsundir skemmtu sér stórvel á frábærum útitónleikum á Miðbæjartorgi og var fullt hús á stórdansleik Aftureldingar í Íþróttahúsinu aðfararnótt laugardags.
Góð mæting var í Íþróttahúsið á sunnudaginn og var hápunktur dagsins tónleikar með Stórsveit Reykjavíkur ásamt Ragga Bjarna og Kristjönu Stefáns, sem tókust einkar vel. Mosfellsbær þakkar öllum þeim sem tóku þátt í frábærri bæjarhátíð og vonar að hátíðin að ári heppnist jafnvel. Að lokum má minna fólk á að taka niður skreytingar.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir