Nú er nýlokið þátttöku Mosfellsbæjar í samevrópskri samgönguviku þar sem vakinn var athygli á áhrifum aukinnar umferðar í þéttbýli og hvatt til breyttra og betri samgöngumáta.
Af því tilefni var almenningi í Mosfellsbæ boðið að reyna sig í vistakstri í vistaksturshermum Landverndar, bæjarfulltrúar og nefndarmenn kepptu í sparaksturskeppni og sett var upp hjólaþrautabraut á nýja miðbæjartorginu þar sem fjöldi barna og unglinga lagði leið sína til að sjá landslið BMX hjólreiðakappa sýna ótrúlegar listir á hjólunum.
Á hjóladegi fjölskyldunnar var hjólað úr úthverfum höfuðborgarsvæðisins niður í miðbæ Reykjavíkur með bæjarstjóra í broddi fylkingar og á strætódaginn var fjársjóðsleit í strætó, þar sem 150 bíómiðar voru faldir á áberandi stöðum í strætisvögnum.
Á lokadeginum fór síðan fram kynning og reynsluakstur á vistvænum farartækjum í miðbæ Mosfellsbæjar, s.s. á Prius tvinnbílum, metanbílum, rafmagnssportbíl, rafmagnshjólum og sjálfskiptum reiðhjólum, þar sem almenningi gafst kostur á að bera saman hina mismunandi kosti í umhverfisvænum samgöngum.