Dagskrá þjóðhátíðardagsins í Mosfellsbæ var fjölbreytt og veðrið lék við hátíðargesti.
Forseti bæjarstjórnar, Anna Sigríður Guðnadóttir fór með hátíðarræðuna og fjallkona var Lára Hrönn Pétursdóttir sem flutti Storm eftir Hannes Hafstein.
Dagskrá þjóðahátíðardagsins hófst á hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju undir stjórn sr. Hennings Emils Magnússonar. Ræðumaður var Jógvan Hansen söngvari og stóðu skátar frá skátafélaginu Mosverjar heiðursvörð við kirkjuna.
Skátarnir sáu einnig um að leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Hlégarði þar sem hátíðardagskráin fór fram að viðstöddum miklum fjölda bæjarbúa. Dagskráin samanstóð af flutningi skólahljómsveitar, hátíðarræðu forseta bæjarstjórnar sem og ávarpi fjallkonunnar. Þá voru leikin atriði úr úr Dýrunum í Hálsaskógi á vegum Leikfélags Mosfellssveitar, hljómsveitin Langi Seli og Skuggarnir léku tónlist og þá mættu íbúar úr Latabæ og Lára og Ljónsi auk fleiri gesta.
Árlegt og glæsilegt kaffihlaðborð Aftureldingar var vel sótt að vanda og keppt var um titilinn Sterkasti maður Íslands á Hlégarðstúni sem er árleg keppni skipulögð af Hjalta Árnasyni betur þekktum sem Hjalta Úrsus. Í ár var það Garðar Karl Ólafsson sem sigraði keppnina, Bjarni Tristan Vilbergsson var í öðru sæti og Aron Guðmundsson í því þriðja. Fjöldi fólks fylgdist með keppninni sem fór fram á tveimur stöðum þ.e. í Reykjavík og Mosfellsbæ þar sem úrslitin fóru fram.
Það var litrík og skemmtileg stemning sem einkenndi fallega bæinn okkar á þessum hátíðardegi og ánægjulegt að sjá hversu margir sóttu viðburðina.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið