Mosfellsbær efndi á dögunum til skuldabréfaútboðs til lífeyrissjóða á verðtryggðum skuldabréfum og sá Saga Capital Fjárfestingarbanki um útboðið.
Saga Capital mun jafnframt sjá um skráningu bréfanna í Kauphöll Íslands. Boðnar voru út 1.000 milljónir króna á 5,0% vöxtum til tíu ára. Sölunni er að mestu lokið og er jákvæð niðurstaða útboðsins viðurkenning á sterkri fjárhagslegri stöðu Mosfellsbæjar. Þetta er með bestu lánskjörum sem sveitarfélögum hefur boðist á árinu.
Lánsféð verður nýtt til endurfjármögnunar skulda og til þess að ljúka þeim verkefnum sem eru í gangi vegna uppbyggingar í Mosfellsbæ. Þar á meðal er bygging nýs, framsækins skóla, Krikaskóla, sem tekinn verður í notkun snemma á næsta ári.
Saga Capital, sem sá um sölu skuldabréfanna, hefur verið leiðandi aðili í fjármögnun sveitarfélaga það sem af er árinu. Bankinn er óháður fyrirtækjabanki sem veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fjárfesta.
Rekstur Mosfellsbæjar á árinu 2008 gekk vel – ekki síst ef miðað er við aðstæður í þjóðfélaginu. Rekstrarafgangur af A-hluta að undanskildum fjármagnsgjöldum var 414 milljónir króna. Fjármagnsgjöld voru tæpar 439 milljónir og er því rekstrarhalli á A-hluta sem nemur rúmum 25 milljónum á árinu 2008. Veltufé frá rekstri var 402 milljónir og handbært fé frá rekstri var 541 milljón.
Mosfellsbær er ekki skuldsett bæjarfélag og er með lágt hlutfall skulda í erlendri mynt. Sveitarfélagið hefur ekki tekið langtímalán síðan 2004 og hefur undanfarin fimm ár greitt niður skuldir.
Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins með um 8400 íbúa og hefur þeim fjölgað um 57% á síðustu tíu árum. Í aðeins einu öðru sveitarfélagi á landinu hefur íbúum fjölgað hlutfallslega meira en í Mosfellsbæ á síðasta áratug.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir: “Það er ánægjulegt að okkur hefur tekist að fjármagna brýn verkefni með betri kjörum en almennt bjóðast. Viðtökurnar eru viðurkenning á ábyrgum rekstri sveitarfélagsins á undanförnum árum. Rekstrarniðurstaða síðasta árs er mjög ásættanleg og í raun afrakstur mikillar vinnu sem starfsfólk Mosfellsbæjar hefur lagt á sig til þess að gæta aðhalds í rekstri bæjarins og vil ég nota tækifærið og koma á framfæri þakklæti til þeirra.”
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði