Laugardaginn 31. ágúst kl. 15 – 17 mun opna í Listasal Mosfellsbæjar listsýningin Veisla í farangrinum eftir listakonurnar Söru og Svanhildi Vilbergsdætur.
Sýningin stendur til 20. september og er opin á afgreiðslutíma Bókasafns Mosfellsbæjar.
Öll hjartanlega velkomin og aðgangur ókeypis.
Pistill frá listakonunum – Veisla í farangrinum
Þessi sýning er afrakstur mánaðarlangrar vinnuferðar, sem við systur lögðum í til Danmerkur í maí 2012, nánar tiltekið í Gammel Have á Fjóni. Þar höfðum við útaf fyrir okkur einbýlishús og forláta vinnustofu í bakgarðinum, umkringdar geltandi hundum, hneggjandi hestum, gaggandi gauk og ekki síst skærgulum repjuakri og risastóru kirsuberjatréi, sem við fylgdumst með frá degi til dags blómstra endalausum hnausþykkum fagurbleikum blómaknippum.
Er við lögðum í þessa ferð höfðum við meðferðis stóreflis striga, upprúllaðan í tilsvarandi langan og sveran plasthólk, sem komst naumlega inní neongræna skíðatösku sem okkur áskotnaðist að láni fyrir þessa „skíðaferð“ okkar í Fjónsku Alpana.
Á þennan striga var öll fjölskyldan okkar samankomin í heljarinnar garðveislu og átti bara eftir að mála hana. Það gerðum við á Fjóni. Komnar heim með lús í hári og vírus í hjarta, máluðum við síðan Fjón.
Sara og Svanhildur Vilbergsdætur eru systur, fæddar á Ísafirði 1956 &1964 og útskrifaðar úr Myndlista- og Handíðaskóla Íslands 1985 &1994. Þær hafa málað saman síðan 2010.
Athæfi sitt kalla þær dúett-málun, þar sem þær vinna verk sín í sameiningu allt frá hugmynd til framkvæmdar. Verk þeirra eru mestmegnis sjálfsmyndir í hversdags- og raunverulegum aðstæðum, en vísa um leið út og suður í ævintýraheima og í
listasöguna.
2012 var fyrsta einkasýning þeirra Systrasögur – tvíhent á striga í Listasafni ASÍ og síðar í Listasafni Ísafjarðar. Á þessu ári 2013 tóku þær þátt í tveimur sýningum á Listahátíð í Reykjavík; Augliti til auglitis í Listasafni ASÍ og stærstu útilistasýningu Íslands; Undir berum himni í Þingholtunum í Reykjavík.
Tengt efni
Listamarkaður í desember 2024
Listasalur Mosfellsbæjar kallar eftir listafólki til að taka þátt í jólamarkaði 2024.
Nafnasamkeppni Listasalar Mosfellsbæjar
Listasalur Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum fyrir sýningarárið 2025 - Umsóknarfrestur til 8. júní 2024
Umsóknarfrestur er til og með 8. júní 2024.