Hráslagalegt veður stöðvaði ekki vaska hjólagarpa í gær þegar BMX-BRÓS stóðu fyrir BMX-hátíð á Miðbæjartorgi í tengslum við Samgönguviku.
Í kjölfar kraftmikillar sýningar þar sem hjólasnillingar léku listir sínar á BMX hjólum gafst þátttakendum færi á að leysa krefjandi hjólaþrautir, fá kennslu í grundvallaratriðum og að lokum var tímataka og verðlaun veitt fyrir besta tímann. Allir fengu að auki BMX-BRÓS límmiða.
Næsti viðburður Samgönguviku verður í dag, miðvikudaginn 20. september, en þá mætir Dr. Bæk á Miðbæjartorgið. Öll sem eiga hjól eru hvött til að koma með hjólhesta sína í fría ástandsskoðun hjá Dr. Bæk.
Doktorinn kemur með farandskoðunarstöðina sína, pumpu, olíur og nokkra skiptilykla. Hann skoðar hjólin og vottar heilsu þeirra.