Á Alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember ár hvert er kastljósinu beint að baráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu.
Fatlað fólk er um 15% mannkyns samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eða yfir einn milljarður á heimsvísu. Hér á landi eru þetta um 57.000 manns.
Fram undan er þessi mikilvægi dagur en hann hefur verið haldinn frá árinu 1992 með það að markmiði að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks og ýta undir stuðning við reisn, réttindi og velferð þess. Jafnframt að auka vitund um þann ávinning sem hlýst af þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins – stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífs.
Fjólublár er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks og Mosfellsbær lýsir upp bæjarskrifstofur sínar frá föstudeginum 1. desember til þriðjudagsins 5. desember og leggur þannig þessari mikilvægu baráttu lið.
Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þessa daga heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði