Undirbúningur bæjarhátíðarinnar Í túninu heima er nú í fullum gangi en hátíðin verður haldin síðustu helgina í ágúst.
Hátíðin verður sett fimmtudaginn 29. ágúst og verða fjölbreyttir viðburðir í boði að vanda alla helgina. Má þar nefna garðtónleika, markaði, fornvélahátíð, íþróttaviðburði og margt fleira. Á föstudagskvöld er haldið í skrúðgöngu og brekkusöng í Álafosskvos.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stígur á svið. Breyting verður í ár en flugeldasýning sem björgunarsveitin Kyndill hefur staðið fyrir að loknum tónleikum verður ekki á dagskrá. Mosfellsbær og stjórn björgunarsveitarinnar tóku í sameiningu ákvörðun um að hverfa frá flugeldasýningunni á bæjarhátíðinni í lok sumars. Erfiðara hefur reynst að finna heppilega staðsetningu síðustu ár vegna uppbyggingar í miðbænum sem byrgir sýn frá torginu. Þá hefur umræða um flugelda farið vaxandi síðustu ár með tilliti til umhverfis, manna og dýra.
Björgunarsveitin Kyndill og Mosfellsbær munu vinna enn betur saman að aukinni gæslu á hátíðinni sem vaxið hefur fiskur um hrygg. Fleiri munu koma þar að, t.d. lögregla, barnavernd, félagsmiðstöðin Ból og fleiri. Kyndill verður áfram mikilvægur þátttakandi í framkvæmd Tindahlaupsins sem fram fer á laugardeginum og lýsir upp Álafosskvos með blysum í brekkusöng á föstudagskvöld.
Endanleg dagskrá hátíðarinnar verður kynnt þegar nær dregur.
Hlökkum til að sjá ykkur Í túninu heima!
Á myndinni má sjá Hilmar Gunnarsson og Auði Halldórsdóttur skipuleggjendur hátíðarinnar og þær Ingu Láru og Arnrúnu Ósk frá björgunarsveitinni Kyndli.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir