Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 voru afhentar við hátíðlega athöfn í Hlégarði á bæjarhátíð Mosfellsbæjar Í túninu heima.
Umhverfisviðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum á árinu. Að þessu sinni barst mikill fjöldi tilnefninga um einstaklinga, garða, götur, stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki í Mosfellsbæ.
Umhverfisnefnd ákvað að í ár yrðu veittar viðurkenningar til þriggja einstaklinga sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum og tveggja aðila fyrir fallegan garð.
Mosfellsbær óskar þessum aðilum innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Einstaklingar sem hlutu viðurkenningu í ár
Guðjón Jensson, Arnartanga 43
Guðjón hefur um áratuga skeið verið ótrauður baráttumaður í þágu umhverfismála, ekki síst í Mosfellsbæ. Hann hefur ritað um umhverfismál og tekið mikinn þátt í starfi félaga sem sinna náttúrufegrun og umhverfsivernd, m.a. í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, þar sem hann sat lengi í stjórn, og í náttúruverndar- og útivistarsamtökunum Mosa. Árið 2007 átti Guðjón frumkvæðið að stofnun Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar og var kjörinn fyrsti formaður þess.
Ursula Junemann, Arnartanga 43
Úrsúla hefur um áratuga skeið unnið að umhverfismálum í Mosfellsbæ. Hún var virkur stofnfélagi umhverfisnefndar Varmárskóla meðan hún var þar kennari, stuðlaði þar að aukinni flokkun á sorpi og kom að því að Varmárskóli fékk Grænfánavottun. Hún hefur virkur talsmaður visvænna samgangna enda ferðast hún gjarnan um á reiðhjóli, jafn að sumri sem að vetri, og hefur aðstoðað Mosfellsbæ í Evrópsku samgönguvikunni. Úrsúla er einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar til margra ára.
Ævar Aðalsteinsson, Borgartanga 4
Ævar, skátahöfðingi hjá Skátafélaginu Mosverjar, hefur haft veg og vanda af stikun gönguleiða í fjöllum og fellum Mosfellsbæjar og verið ötull baráttumaður fyrir aukinni útivist og náttúruupplifun bæjarbúa í Mosfellsbæ. Ævar hefur séð um stikun um 90 km gönguleiða um Mosfellsbæ, gerð og uppsetningu fræðslu- og upplýsingaskilta, bílastæða, göngubrúa og vegvísa á stikuðum gönguleiðum, þ.m.t. gerð göngustígar og trappa frá Skarhólamýri.
Eftirfarandi garðar hlutu viðurkenningu
Arnartangi 81
Rúnar Siggeirsson og Valgerður Jóna Sigurðardóttir fá viðurkenningu fyrir fjölskrúðugan og fallegan garð að Arnartanga 81 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um áratuga skeið.
Hrafnshöfða 33
Elsa Hákonardóttir og Pétur Einarsson fá viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel hannaðan garð að Hrafnshöfða 33 þar sem umhirða er til fyrirmyndar.
Tengt efni
Umhverfisviðurkenningar 2024 afhentar á setningarathöfn bæjarhátíðar
Hátíðardagskrá var í Hlégarði fimmtudaginn 29. ágúst þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2024
Umhverfisnefnd óskar eftir tilnefningum frá almenningi vegna umhverfisviðurkenninga Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023 afhentar á bæjarhátíð
Hátíðardagskrá var í Hlégarði sunnudaginn 27. ágúst í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.