Íþrótta- og tómstundanefnd auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar styrkja til efnilegra ungmenna sem leggja stund á íþróttir, tómstundir eða listir.
Öll ungmenni á aldrinum 14 til 20 ára, með lögheimili í Mosfellsbæ, sem skara fram úr og hafa sýnt sérstaka hæfileika á sínu sviði geta sótt um styrkinn.
Markmið Mosfellsbæjar með styrknum er að koma til móts við þau ungmenni sem geta ekki með sama hætti og jafnaldrar þeirra unnið sumarvinnu hjá Mosfellsbæ vegna mikils álags, skipulags eða annarra sannarlegra þátta sem tengist íþrótt þeirra, tómstundum eða listum. Þannig er það vilji bæjarins að þau geti samhliða notið sumarlauna líkt og jafnaldrar þeirra.
Styrknum er ekki ætlað að mæta útgjöldum né er um að ræða verðlaunafé fyrir unnin eða óunnin afrek. Styrkhafa er heimilt að vera í launaðri vinnu nefndan tíma, en þá skerðist styrkurinn í hlutfalli við starfshlutfall.
Íþrótta- og tómstundanefnd hefur eftirfarandi viðmið þegar styrkjum er úthlutað:
- Meðmæli þjálfara, kennara eða annars leiðbeinanda umsækjanda sem fylgja skulu með umsókninni. Þar skulu koma fram upplýsingar um ástundun, hæfileika, virkni og framkomu umsækjandans.
- Fram skulu koma upplýsingar frá umsækjanda hyggist hann þiggja launaða vinnu á styrktímanum. Sé um slíkt að ræða þarf að tilgreina starfshlutfall og hvort óskað er hlutastarfs hjá vinnuskóla bæjarins og eða Mosfellsbæ.
- Gæta skal jafnræðis við val á styrkþegum bæði hvað varðar kynferði sem og milli listgreina og íþrótta- og tómstundagreina. Þessa jafnræðis skal gætt innbyrðis við hverja úthlutun sem og á milli ára.
- Árlega veitir Íþrótta- og tómstundanefnd styrki til 3-5 einstaklinga, breytilegt milli ára þar sem kostnaður fer eftir aldri styrkþega og hvort um hlutfallsgreiðslur sé að ræða.
Styrkurinn er greiddur sem laun frá Vinnuskóla Mosfellsbæjar. Fyrir unglinga í þeim árgöngum sem starfa í Vinnuskólanum er greitt í samræmi við samþykktan taxta hverju sinni og í jafn langan tíma og samsvarar aldri hvers og eins. Ungmenni sem eldri eru fá greidd laun í samræmi við gildandi kjarasamninga, í jafn langan tíma og Mosfellsbær veitir öðrum ungmennum sumarvinnu.
Styrkþegi skal útfylla sérstaka skilagrein og skila henni til Íþrótta- og tómstundanefndar fyrir 20. ágúst. Hann skal þar gera grein fyrir nýtingu tímans sem varið er í það verkefni sem styrkt er.
Umsóknarfrestur er til 12. apríl 2010.
Nánari upplýsingar veitir Þjónusturver Mosfellsbæjar í síma 525-6700 milli kl. 8:00 og 16:00.
Tengt efni
Styrkir til verkefna á sviði velferðarmála fyrir árið 2025
Umsókn um styrk til náms, verkfæra- og tækjakaupa 2024
Umsóknarfrestur er til og með 20. október 2024.
Erna Sóley afreksíþróttamaður 2024