Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt fund með Mosfellingum sl. miðvikudag þar sem skrifað var undir samning milli lögreglunnar og Mosfellsbæjar um aukið öryggi og samvinnu á sviði löggæslu- og forvarnarmála í Mosfellsbæ.
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra er markmið samningsins að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og annarra í Mosfellsbæ. Það verður meðal annars gert með markvissri samvinnu lögreglu og starfsmanna sveitarfélagsins, sameiginlegri miðlun og greiningu upplýsinga og samvinnu um aukið og skipulagt eftirlit í sveitarfélaginu.
Hann segir það mikilvægt að lögreglan verði gerð sýnilegri í Mosfellsbæ og geri samningurinn ráð fyrir því. Verið er að koma á sólarhringslöggæslu í Mosfellsbæ þar sem aukin áhersla verður á skipulögðu eftirliti í bænum. Sjónum verður meðal annars beint að umferðaröryggi við skóla í Mosfellsbæ, á þeim stöðum þar sem umferðarslys hafa orðið. Einnig verður skipulagt eftirlit aukið til muna með það að markmiði að draga úr innbrotum og eignaspjöllum. Stefnt er að því að fækka innbrotum, einkum innbrotum á heimili í Mosfellsbæ, eignaspjöllum og slysum í umferðinni um 5-10% milli ára.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu hafa forgöngu um það í samvinnu við lögreglu að hvetja íbúa í tilteknum götum og hverfum til að koma á nágrannavörslu, styðja við foreldrarölt og önnur sambærileg forvarnaverkefni af hálfu íbúa. Fundur með íbúum um nágrannavörslu í Mosfellsbæ verður haldinn þriðjudaginn 24. nóvember í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna.
Samvinna milli starfsmanna lögreglu og sveitarfélagsins verður aukin og efld. Sérstaklega verður horft til samvinnu lögreglu, félagsmálayfirvalda, skólastjórnenda og barnaverndarnefndar á sviði forvarnarmála með sérstakri áherslu á persónubundnar forvarnir. Einnig verði samvinna á sviði umferðarmála styrkt með það að markmiði að draga úr umferðarslysum.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði