Það var einkar góð stemming í Hlégarði síðdegis í gær. Starfsfólki Mosfellsbæjar, sem hefur annað móðurmál en íslensku, var boðið í kaffispjall og boðinn aðgangur að smáforritinu Bara tala.
Síðla hausts samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar tillögu þess efnis að á nýju ári yrði öllu starfsfólki sveitarfélagsins af erlendum uppruna veittur gjaldfrjáls aðgangur að hinni nýstárlegu og skemmtilegu íslenskukennslu Bara tala. Á þennan upphafsviðburð mættu um 35 starfsmenn frá 14 þjóðlöndum og hófu þar með þátttöku í verkefninu.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri ávarpaði starfsfólkið og þakkaði kærlega fyrir áhugann á að læra íslensku en hjá Mosfellsbæ starfar fólk frá yfir 25 löndum, með fjölbreytta og mikilvæga reynslu sem nýtist víðsvegar á vinnustöðum sveitarfélagsins. ,,Það er okkur öllum mikilvægt að ýta undir góð og gagnleg samskipti í vinnunni og tungumálið okkar er ein af forsendum þess“ segir Regína. ,,Við erum sannfærð um að snjallforritið Bara tala muni nýtast vel við að þjálfa upp enn betri færni í að skilja, tala og nota íslenskt mál, bæði í vinnu og einkalífi“
Í framhaldinu kynntu þeir Guðmundur Auðunsson og Jón Gunnar Þórðarson frá Bara tala forritið fyrir viðstöddum og hvöttu eindregið til daglegrar notkunar, jafnt heima sem og í vinnunni.
Jón Gunnar segir: „Við í Bara tala erum himinlifandi með samstarfið við Mosfellsbæ. Í dag komu fjölmargir erlendra starfsmanna frá Mosfellsbæ saman. Mosfellingar frá Gana, Brasilíu, El Salvador, Úganda, Póllandi, Úkraínu, Kína, Ungverjalandi, Rússlandi og Búlgaríu og það sem þau áttu öll sameiginlegt er vilji þeirra til að læra íslensku. Það er á svona stundu sem maður fyllist þakklæti. Íslenska með hreim er tákn um hugrekki“.
Forritið Bara tala er nokkurskonar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Smáforritið bíður bæði upp á starfstengt íslenskunám og grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði með því að nota sjónrænar vísbendingar og myndir svo notendur geti auðveldlega bætt orðaforða sinn, hlustunarfærni og hagnýtt minni, sem þegar fram í sækir getur aukið sjálfstraust þegar íslenska er töluð.
Á næstu mánuðum er líklegt að íslenskuþjálfun verði í forgrunni víða um Mosfellsbæ. Á fundinum kom fram mikilvægi þess að samstarfsfólk og aðrir temji sér þolinmæði til að hlusta á fólk sem er að spreyta sig á íslensku með því að „bara hlusta”.
Mynd 1: Rosa Delmi Noemy Ponce Lopez, Pimpernel Wernas, Olha Kovalenko, Pimpernel Verwijnen, Iryna Belozor og Enoch Osei.
Mynd 2: Yfirlitsmynd af hópnum í Hlégarði.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði