Tekin hefur verið ákvörðun um að 1. hæð Kvíslarskóla verði lokuð frá og með næsta hausti og að kennt verði í lausum stofum á lóð skólans.
Lögð verður áhersla á það í fyrsta áfanga að innrétta anddyri og salerni skólans. Í ljósi ábendinga frá bæði skólastjórnendum og verktökum hefur verið ákveðið að gera breytingu á áfangaskiptingu verkefnisins í Kvíslarskóla með þessum hætti.
Niðurrifi á 1. hæð er lokið að 95% og skemmt byggingarefni hefur nú verið fjarlægt. Nú er unnið að því að ljúka við hreinsun á eldri lögnum, frauði og eldri lagnastokkum. Næsti verkþáttur felst í að brjóta úr plötu fyrir nýjum frárennslislögnum og í kjölfar þess lagningu nýrra neysluvatnskerfa.
Útboð á greftri kringum skólann, lagningu nýrra drenlagna og nýrra fráveitulagna er nú í gangi og verður hafist handa við þá verkþætti um leið og búið er að ganga frá samningum við verktaka.