Bæjarhátíð Mosfellsbæjar verður haldin helgina 28.-30. ágúst og er dagskráin að vanda fjölbreytt, metnaðarfull og skemmtileg.
Hátíðin verður sett á Miðbæjartorgi á föstudag kl. 20 og verður gengið í karnivalskrúðgöngu að lokinni setningarathöfn yfir í Ullarnesbrekkur þar sem varðeldur verður tendraður og brekkusöngur sunginn. Mosfellingar eru hvattir til að mæta í hverfislitunum og má jafnframt benda á að í ár verður breytt um lit á einu hverfi. Vegna fjölda áskorana verður hvíta hverfið bleikt í ár, þ.e. Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Dalur. Íbúum er þó frjálst að nota áfram hvítan með í skreytingar.
Fjöldi viðburða verður alla helgina, víðs vegar um bæinn. Á laugardag og sunnudag verður dagskrá í Íþróttamiðstöðinni að Varmá milli kl. 13 til 17. Þar verða kynningarbásar frá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum í Mosfellsbæ og jafnframt fjöldi skemmtiatriða sem miðast við yngstu kynslóðina. Til að mynda munu hinar sívinsælu Skoppa og Skrítla mæta á svæðið á laugardag. Á sama tíma verður fjölbreytt dagskrá á Varmárvelli, t.a.m. verður hópflug og karamellukast á vegum Flugklúbbs Mosfellsbæjar á laugardag og hundasýning á vegum hundaskólans Gallerí Voff. Á laugardeginum verður jafnframt tónlistardagskrá í Hlégarði frá kl. 14.
Hápunktur bæjarhátíðarinnar verður á laugardagskvöld. Haldin verða götugrill víðs vegar í hverfum bæjarins og að þeim loknum verða útitónleikar fyrir alla fjölskylduna á Miðbæjartorgi. Tónleikarnir hefjast með barnadagskrá kl. 20:30 þar sem Björgvin Franz og dvergurinn Dofri úr Stundinni okkar munu skemmta börnunum í um hálftíma. Því næst taka við ekki minni númer en Paparnir, Bubbi og Egó og einnig mun Mosfellingurinn hæfileikaríki, Hreindís Ylfa sem og Alan, sem sló í gegn í X-Factor, skemmta. Að tónleikum loknum verður flugeldasýning og við tekur stórdansleikur í Íþróttamiðstöðinni Varmá í umsjón Knattspyrnudeildar Aftureldingar. Dúettinn Hljómur, Bubbi og Egó og Paparnir leika fyrir dansi.
Útimarkaðir verða á tveimur stöðum á laugardaginn kl. 12 til 16. Annars vegar í Mosskógum í Mosfellsdal og hins vegar Álafosskvos.
Lokaatriði bæjarhátíðinnar verður í Íþróttamiðstöðinni að Varmá á sunnudag kl. 15. Þá mun Stórsveit Reykjavíkur ásamt Ragga Bjarna og Kristjönu Stefánsdóttir skemmta Mosfellingum.
Formlegri dagskrá lýkur kl. 17.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir