Strætó bs. býður nú 33% lengri gildistíma á tímabilskortum sem keypt eru á vef Strætó og mun gera það næsta hálfa árið eða fram til 15. október nk.
Þannig munu 30 daga kort sem keypt eru á vefnum á þessu tímabili gilda í 40 daga, 90 daga kort í 120 daga og 9 mánaða kort í 12 mánuði. Tilboðið gildir á gjaldsvæði 1, þ.e. höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er fyrst og fremst gert til þess að fá fleiri til að nota strætó reglulega og koma til móts við þá sem nú leita leiða til að draga saman útgjöld heimilisins. Um leið er þetta hvatning til notenda strætó um að nýta vef Strætó til að kaupa kort, leita sér upplýsinga um leiðakerfið, áætlun vagnanna o.s.frv.
Sá sem ferðast með strætó í stað einkabíls til og frá vinnu eða skóla (10 km) fimm daga vikunnar allt árið um kring getur þannig sparað sér enn hærri fjárhæð en áður með notkun strætó, eða um 150 þús. krónur á ári sé borinn saman kostnaður annars vegar við hvern ekinn km einkabíls skv. útreikningum FÍB og hins vegar við 9 mánaða kort Strætó keypt á netinu fyrir 15. október. Þessi sparnaður margfaldast ef notandinn nýtir tækifærið og selur einkabílinn.
„Við finnum fyrir auknum áhuga hjá almenningi á að nýta sér strætó, því samkvæmt talningum fyrstu þrjá mánuði ársins hefur farþegum í strætó fjölgað umtalsvert miðað við sama tíma í fyrra. Við finnum einnig að margar fjölskyldur hyggjast leggja einum bíl auk þess sem fjölmargir vinnustaðir hafa markað sér þá umhverfisstefnu að bjóða starfsfólki sínu upp á niðurgreiddar og vistvænar almenningssamgöngur í stað þess að leggja dýrmætt land undir bílastæði. Með tilboðinu um 33% lengri gildistíma korta viljum við koma til móts við fólk, auðvelda því að stíga þessi skref og hvetja til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
„Hafi fólk verið hikandi við að stíga skrefið til fulls gerir þetta ákvörðunina enn auðveldari. Um leið má geta þess að gjaldskrá Strætó bs. hefur ekki hækkað í rúm þrjú ár, eða síðan 1. janúar 2007, og því hafa fargjöldin í raun lækkað jafnt og þétt að raunvirði á þessu mikla verðbólguskeiði. Strætófargjöld hér á landi eru nú ódýrari en fargjöld í þeim löndum sem við miðum okkur jafnan við,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, formaður stjórnar Strætó bs.
Á vef Strætó er einfalt að kaupa kort og leita upplýsinga um leiðakerfi og áætlun Strætó.