Þriðjudaginn 28. maí fagnar skólahljómsveit Mosfellsbæjar 60 ára starfsafmæli kl.18:00 í félagsheimilinu Hlégarði.
Markmið hennar hefur alla tíð verið að bjóða nemendum í Mosfellsbæ uppá ódýrt hljóðfæranám ásamt því að taka þátt í menningarviðburðum í sveitarfélaginu, halda tónleika og vera í góðu samstarfi við Listaskóla Mosfellsbæjar.
Haustið 1963 voru keypt hljóðfæri fyrir hóp ungra drengja við Varmárskóla sem hófu að æfa saman. Hópurinn lék fyrst á skólaskemmtun og fyrir hestamenn sem komu í hópreið frá Reykjavík. Stóra stundin var svo þegar haldið var upp á 17. júní hátíðarhöld árið 1964 í fyrsta sinn í Mosfellssveit. Þennan dag var Varmárlaug einnig vígð og því mikið um dýrðir þegar hljómsveitin lék fyrst opinberlega. Alla tíð síðan hefur hún verið stór hluti af menningarlífi bæjarins.
Birgir Sveinsson fyrrverandi kennari, yfirkennari og síðar skólastjóri Varmárskóla stofnaði skólahljómsveitina og stýrði henni í 40 ár eða þar til núverandi stjórnandi Daði Þór Einarsson tók við stjórn hennar árið 2004. Daði er uppalinn í Mosfellsdal og gekk sjálfur til liðs við sveitina 9 ára gamall og hefur alla tíð síðan verið í nánum tengslum við hana.
Nemendur fara reglulega í æfingabúðir og ferðir erlendis og eru þær orðnar 18 frá stofnun hljómsveitarinnar. Sú næsta er dagana 9. – 16. júní 2024 þegar hljómsveitin heldur til Danmerkur.
Mosfellsbær þakkar öllu því góða fólki sem hefur byggt upp skólahljómsveitina og komið að því mikilvæga starfi sem þar er unnið og óskar nemendum, kennurum og velunnurum til hamingju með 60 ára starfsafmælið.
Tengt efni
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar