Jólatréð á miðbæjartorgi var tendrað síðastliðinn laugardag að viðstöddum fjölda íbúa sem létu sig ekki vanta frekar en fyrri ár.
Skólahljómsveitin hitaði upp, börn úr forskóla Listaskóla Mosfellsbæjar og úr barnakór Lágafellskirkju fluttu nokkur lög. Þau Embla Markúsdóttir og Auðunn Þór B. Adriansson úr leikskólanum Höfðabergi aðstoðuðu Höllu Kareni Kristjánsdóttur formann bæjarráðs við að kveikja á jólatrénu. Mosfellingurinn og söngkonan Stefanía Svavars söng jólalög og jólasveinar dönsuðu með börnunum kringum jólatréð. Fjölmargir færðu sig að þessu loknu inn í Kjarna þar sem var kakó og vöfflusala, kökubasar Kvenfélagsins og Hamrahlíð vinna og virkni (Skálatún) seldi handverk auk þess sem Mosfellskórinn söng nokkur lög.
Það er því ekki hægt að segja annað en að sannkölluð jólagleði hafi verið ríkjandi í Mosfellsbæ þennan dag eins og myndirnar gefa til kynna.
Þá styttist í jólamarkaðinn í Hlégarði næstu helgi og verður hann 9. desember frá kl. 14:00-17:00. Öll pláss í sölubásum eru nú þegar uppseld og ljóst að margt áhugavert og spennandi verður í boði.