Í lok síðasta árs gerðu Mosfellsbær og félagsmálaráðuneytið með sér samkomulag um innleiðingu tilraunaverkefnis í Mosfellsbæ um framkvæmd félagslegrar ráðgjafar sem snýr sérstaklega að skilnaðarráðgjöf og kallast Samvinna eftir skilnað (SES – Samarbejde Eftir Skilsmisse) og var þróað af fagfólki og fræðimönnum við Kaupmannahafnarháskóla.
Verkefnið miðar að því að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi milli foreldra sem standa í skilnaðarferli og á þann hátt að vernda börn þeirra í ferlinu. Í gegnum verkefnið öðlast foreldrar færni í að takast á við óvæntar uppákomur tengt skilnaðinum og skilja viðbrögð barna sinna við þeim.
Félagsrágjafar fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar fá þjálfun og kennslu frá sérfræðingum SES í þeim gagnreyndu aðferðum sem notaðar eru í verkefninu og geta þannig stutt við þá foreldra sem taka þátt í SES en rannsóknir hafa sýnt að þeir sem taka þátt í SES skilnaðarráðgjöf líður betur bæði andlega og líkamlega.