Bæjarráð samþykkti á 1606. fundi sínum í gær þann 14. desember tillögu um að bjóða út 1. áfanga af 5 í LED væðingu allrar götulýsingar í Mosfellsbæ til samræmis við nýjar reglugerðir.
Götulampar í Mosfellsbæ eru rúmlega 3700 talsins og verður um 3000 þeirra skipt út. Áætlaður kostnaður við 1. áfanga verksins er um 50 m.kr. og er heildarkostnaður við framkvæmdina sem gert er ráð fyrir að nái yfir árin 2024-2028 er um 390 m.kr.
Markmiðið er að ná betri lýsingu en einnig sparnaði í viðhaldi og raforkunotkun. Samanburður á verði sýnir um 80% lægri kostnað af LED-götulýsingu samanborið við raforkuþörf eldri natríum- eða kvikasilfurslampa.
Tillagan gerir ráð fyrir að götulömpum í elstu hverfunum verði skipt út í 1. áfanga framkvæmdarinnar og því verði hafist handa í Holta- og Tangahverfi.