Hjólareiðastígar liggja víðs vegar um Mosfellsbæ, meðfram strandlengjunni, um Ævintýragarðinn í Ullarnesbrekkum og upp í Mosfellsdal og allt þar á milli.
Ennfremur er kominn góður samgöngustígur milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, meðfram Vesturlandsvegi framhjá skógræktinni í Hamrahlíð. Tilkoma hans hefur ýtt undir vistvænar samgöngur milli sveitarfélaganna. Stígurinn hefur nú verið endurhannaður frá Litla-Skógi við Hlíðartún að Brúarlandi, með það að markmiði að gera aðgengið að miðbænum betra.
Í tilefni af Samgönguviku í Mosfellsbæ eru íbúar hvattir til að nýta sér þetta fjölbreytta úrval hjólareiðastíga í bænum til útivistar nú um helgina og notfæra sér um leið ítarleg hjóla- og göngustígakort bæjarins sem eru aðgengileg á vef bæjarins.