Evrópsk samgönguvika, European Mobility Week, hefst í dag en vikan stendur yfir 16.-22. september ár hvert.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti.
Af viðburðum í samgönguvikunni í Mosfellsbæ í ár má nefna BMX-hátíð á miðbæjartorginu, ókeypis hjólastillingar og smáviðgerðir Dr. Bæk fyrir almenning, kynningu á hjólaleiðum á vef bæjarins og Bíllausa daginn, sem alltaf er haldin þann 22. september þegar almenningur er hvattur til að nýta sér vistvæna samgöngumáta í sínum ferðum. Strætó bs. og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða frítt í strætó á Bíllausa daginn.
Mosfellingar eru hvattir til að taka þátt í þessu árlega átaki, draga fram hjólið og gönguskóna, og njóta góðrar útiveru og heilsusamlegrar hreyfingar.
- BMX-brós sýna listir sínar á miðbæjartorginu föstudaginn 17. september kl. 15:00 – 17:00.
- Dr. Bæk mætir á miðbæjartorginu mánudaginn 20. september kl. 15:00 – 17:00.