Í dag hefst Evrópsk Samgönguvika, European Mobility Week, en vikan stendur yfir 16. – 22. september ár hvert.
Samgönguvikunni í ár er ýtt úr vör með ljósmyndasamkeppni með myllumerkinu #samgonguvika2022 sem Strætó bs. heldur utan um. Öll eru hvött til að taka þátt, vegleg verðlaun í boði.
Af viðburðum í samgönguvikunni í ár má nefna Hjólaævintýri höfuðborgarsvæðisins á laugardag þar sem m.a. verður hjólað frá miðbæjartorginu í Mosfellsbæ í Elliðaárdal þar sem hátíðardagskrá verður í boði, BMX-hátíð á miðbæjartorginu á þriðjudag og fríar hjólastillingar og smáviðgerðir á miðvikudag. Dagskrá samgönguviku má finna á mos.is.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við nágrannasveitarfélögin og aðra hagaðila. Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti.
Mosfellingar eru hvattir til að taka þátt í þessu árlega átaki, draga fram hjólið og njóta góðrar útiveru og heilsusamlegrar hreyfingar.