Sextugasti rampurinn kominn upp í verkefninu Römpum upp Ísland.
Verkefnið Römpum upp Ísland hófst handa við að rampa upp Mosfellsbæ í vikunni. Lögð er áhersla á að leggja rampa við staði þar sem mannlíf er mikið. Rampar sem hafa verið settir upp í Mosfellsbæ eru meðal annars við verslanir og fyrirtæki í Háholti og þar af er rampur nr. 60 í verkefninu. Markmiðið með verkefninu er að setja upp þúsund rampa á næstu fjórum árum á landinu öllu.
Systurnar Arnheiður og Árdís Heiðarsdætur tóku að sér að opna formlega rampinn við Mosfellsbakarí kl. 13:00 föstudaginn 8. júlí. Þær sendu nýlega erindi til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar ásamt vinkonuhópi sínum og vöktu athygli á mikilvægi þess að öll geti farið á þá staði sem þau vilja.
Mosfellsbær fagnar framtakinu og komu þessa mikilvæga og þarfa verkefnis í bæinn. Aðgengi getur verið takmarkandi fyrir hreyfihamlaða og oft er hægt að bæta aðgengi til muna með einföldum hætti.
Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur. Rampar eru settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi. Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins.
Tengt efni
Er líða fer að jólum í Mosfellsbæ
Fjöldi viðburða verða í boði í Mosfellsbæ í aðdraganda jóla.
Framkvæmdir við lokahús við Víðiteig eru hafnar
Tveir nýjir leikvellir í Helgafellshverfi tilbúnir