Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
17. september 2020

Tón­list­ar­mað­ur­inn Ósk­ar Ein­ars­son er bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar 2020.

„Þetta er fyrst og fremst frá­bær heið­ur að hljóta þessa við­ur­kenn­ingu og er ég mjög þakk­lát­ur og snort­inn,“ seg­ir tón­list­ar­mað­ur­inn Ósk­ar Ein­ars­son, bæj­arlista­mað­ur Mos­fells­bæj­ar 2020. Það er menn­ing­ar- og ný­sköp­un­ar­nefnd sem stend­ur fyr­ir út­nefn­ing­unni líkt og síð­ast­lið­in 25 ár.

Ósk­ar er fædd­ur á Ak­ur­eyri en hef­ur ver­ið bú­sett­ur í Mos­fells­bæ síð­an árið 2003 og seg­ist hvergi ann­ars stað­ar vilja vera. Hann stund­aði pí­anó- og saxó­fón­nám við tón­list­ar­skól­ann á Ak­ur­eyri, stund­aði nám við FÍH og lauk blás­ara­kenn­ara­prófi frá Tón­list­ar­skól­an­um í Reykja­vík 1995. Hann hef­ur lok­ið masters­gráðu í út­setn­ing­um frá Uni­versity of Miami. Auk pí­anó­leiks og kór­stjórn­ar leik­ur hann á flautu, saxó­fón og klar­in­ett.

Þekkt­ast­ur fyr­ir gospel­tónlist

Gospel­tónlist er sú teg­und tón­list­ar sem Ósk­ar er þekkt­ast­ur fyr­ir. Hann var stofn­andi og stjórn­andi Gospelkórs Reykja­vík­ur og hef­ur ver­ið tón­list­ar­stjóri Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar í Reykja­vík í um 30 ár. Hann starfar sem tón­list­ar­stjóri í Linda­kirkju í Kópa­vogi og stýr­ir þar öfl­ug­um kirkju­kór sem held­ur reglu­lega gospel­tón­leika.

Ósk­ar lét ekki sitt eft­ir liggja í COVID-19 bylgj­unni í vor og stóð fyr­ir við­burð­in­um Hitt­umst heima ásamt fé­lög­um sín­um í Gospeltón­um.

Ósk­ar Ein­ars­son er öfl­ug­ur tón­list­ar­mað­ur sem hef­ur kom­ið víða við og er vel að heiðr­in­um kom­inn.

„Ég man fyrst eft­ir að hafa séð mynd af mér í blaði, eins árs göml­um, við pí­anó­ið heima þar sem stóð „Litli pí­anósnill­ing­ur­inn“. Þar byrj­aði þetta. Svo hef ég ver­ið í tón­list­ar­námi frá því ég man eft­ir mér, hlustað á mús­ík og unn­ið við þetta alla ævi.“

Dag­arn­ir hjá Ósk­ari eru mjög fjöl­breytt­ir. „Ég spila í brúð­kaup­um, út­för­um og sé um tónlist í sjón­varpi, leik­hús­un­um og auð­vit­að í kirkj­unni.“

Ósk­ar hef­ur fylgst með blóm­legu kór­a­lífi í Mos­fells­bæ og með­al ann­ars út­sett og stjórn­að tón­leik­um með Karla­kórn­um Stefni og ver­ið með tón­leika með Álafoss­kórnum. Þá hef­ur hann feng­ið sinn kór, Gospelkór Reykja­vík­ur, til að halda tón­leika hér auk þess sem hann hef­ur margoft spil­að með mos­fellsk­um lista­mönn­um eins og Gretu Salóme og Diddú.

Kynn­ir sig og verk sín á næst­unni

Á því ári sem bæj­arlista­mað­ur er til­nefnd­ur kynn­ir hann sig og verk sín inn­an Mos­fells­bæj­ar í sam­vinnu við menn­ing­ar- og ný­sköp­un­ar­nefnd. Auk nafn­bót­ar­inn­ar er lista­mann­in­um veitt­ur menn­ing­ar­styrk­ur.

„Ég er strax bú­inn að und­ir­stinga mitt fólk með að gera eitt­hvað skemmti­legt hér í Mos­fells­bæ á næst­unni og fæ jafn­vel Pál Rós­inkr­ans með mér í ein­hver verk­efni,“ seg­ir Ósk­ar að lok­um og hafði aldrei hugs­að svo langt að mað­ur eins og hann, á bakvið tjöld­in, væri vel að slíkri við­ur­kenn­ingu kom­inn.

Tengt efni