Föstudaginn 20. maí var opnuð sýning myndlistarmannanna Lindar Völundardóttur og Marijolijn van der Mej, NÚNA, í Listasal Mosfellsbæjar.
Þær hafa báðar unnið að list sinni í Hollandi. Fyrir tveimur árum hófu þær samstarf og hefur það ferli gengið vel.
Hugmyndin er að sýningin sé unnin fyrir rýmið. Marjolijn vinnur sín verk í vinnustofunni sinni í Den Haag og flytur þau til Íslands, en Lind vinnur forvinnuna í vinnustofu sinni á Íslandi og klárar verkin í sýningarýminu.
Sýningin stendur til 10. júní.
Sýningin er opin á afgreiðslutíma Bókasafns Mosfellsbæjar.
Um verkin/listamennina
Verk Lindar Völundardóttur eru oftar en ekki tengd þeirri áráttu hennar að safna hlutum og ljósmyndum sem vekja með henni sterkar upplifanir. Söfnunaráráttuna notar hún sem útgangspunkt í list sinni.
Í skráningu á tístudýrasafninu er hún annars vegar að leitast við að skrásetja safnið og hins vegar að forma rannsókn á fegurð og leik. Dýrin eru afurðir síns tíma og tíðaranda og segja okkur hvernig við lítum á börn og þeirra þarfir og gefur okkur þannig mynd af okkur sjálfum sem afsprengjum ákveðins tíma og hugsunarháttar. Tístudýrin vekja upp áleitnar spurningar um sköpun. Börn eru án efa mest skapandi verur í mannheimum. Hver er tilgangurinn með því að búa til leikföng fyrir þau sem nær útiloka sköpunarkraftinn? Kemur hugmyndin frá barni eða manni í jakkafötum á auglýsingastofu um 1950? Eftir að hafa ráðfært sig við börn og spjallað og leikið með dúkkurnar ákvað Lind að setja fram myndræna niðurstöðu á tilfinningum. Sambland af hennar eigin upplifunum og þeirra.
Verk Marjolijn van der Meij einkennast af áhuga hennar á undarlegum fyrirbærum sem liggja falin í þjáningarkjarna mannlegrar tilvistar. Hún notar gamlar ljósmyndir sem upphafspunkt og afhjúpar undirliggjandi strauma samfélagsgerðar og hóphegðunar. Nýjustu verk hennar eru sería af teikningum, sem hún kallar seances eða skyggnilýsingar og eru einskonar flótti frá óþægilegri skynjun og lágkúrlegu sjónarhorni á daglega lífið.
Marjolijn hóf gerð stórra kolateikninga eftir vinnstofudvöl í Reykjavík árið 2007 þar sem hún tókst á við hið yfirþyrmandi í náttúrunni.
Fyrri mynd: Verk eftir Marjolijn van der Meij.
Seinni mynd: Verk eftir Lind Völundardóttur.
Tengt efni
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar
Listamarkaður í desember 2024
Listasalur Mosfellsbæjar kallar eftir listafólki til að taka þátt í jólamarkaði 2024.
Nafnasamkeppni Listasalar Mosfellsbæjar