Þann 26. október sl. samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar nýtt heiti fjölskyldunefndar sem mun nú bera heitið velferðarnefnd.
Samhliða breytingu á heiti nefndarinnar samþykkti bæjarráð í morgun, 3. nóvember, að breyta heiti fjölskyldusviðs í velferðarsvið.
Verkefni sviðsins beinast jafnt að einstaklingum sem og fjölskyldufólki og er talið að hugtakið velferð fangi betur þau markmið sem sviðið vinnur eftir, það er að auka lífsgæði, vellíðan og velferð þeirra sem leita eftir þjónustu sviðins. Verkefni sviðsins taka til margra þátta, svo sem tengt húsnæðis- og fjármálum, félagslegum þáttum, málefnum eldri borgara og fatlaðs fólks, barnavernd og margt fleira. Hugtakið velferð getur þannig spannað huglæga, félagslega og efnislega þætti.
Við hlökkum til að veita áframhaldandi þjónustu undir nýju heiti velferðarsviðs.