Nýtt leiðanet er afrakstur vinnu faghóps um leiðakerfismál og markmið verkefnisins er að laga Strætó að breyttu skipulagi og innleiða nýjar áherslur þar sem örari tíðni og styttri ferðatími verður í forgrunni.
Strætó leggur mikla áherslu á þátttöku almennings í mótun nýs leiðanets. Hægt er að skila inn hugmyndum og ábendingum á vef leiðanetsins.
Lagt er til að skipta leiðanetinu í tvo flokka: stofnleiðir og almennar leiðir og taka fyrstu hugmyndir mið af því.
Stofnleiðanetið er skipulagt sem burðarásinn í Nýju leiðaneti og tilgangur þess verður að flytja mikinn fjölda farþega á sem stystum tíma. Áætlað er að vagnar á stofnleiðum aki á 7-10 mínútna fresti á annatímum og 15-20 mínútna fresti utan annatíma.
Borgarlína mun leysa hluta stofnleiðanets Strætó af hólmi eftir því sem sérrými Borgarlínu byggist upp.