Mosfellsbær hefur gefið út nýtt göngu- og hjólastígakort sem sýnir samgöngu- og útivistarstíga í Mosfellsbæ og tengingu þeirra við stígakerfi annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig hefur verið sett upp nýtt göngu- og hjólareiðaskilti við Leiruvog neðan Leirutanga og fljótlegamun annað skilti verða sett upp við íþróttamiðstöðina við Varmá. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri vígði skiltið á hjóladegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Evrópsku samgönguvikunni í septemberlok og Mosfellsbær tók þátt í.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti. Af því tilefni gaf Mosfellsbær m.a. út nýtt göngu- og hjólastígakort sem sýnir samgöngu- og útivistarstíga í Mosfellsbæ og tengingu þeirra við stígakerfi annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Stígakortin eru aðgengileg á vef Mosfellsbæjar og liggja einnig frammi í þjónustuveri Mosfellsbæjar, Bókasafni Mosfellsbæjar og íþróttamiðstöðvum við Varmá og Lágafell.