Nýsköpunarstyrkur Mosfellsbæjar var afhentur í Hlégarði fimmtudaginn 27. júní.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd veitir nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar annað hvert ár. Þau nýsköpunarverkefni koma til greina sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega eða gagnast Mosfellsbæ á einn eða annan hátt.
Nýsköpun er skilgreind sem innleiðing nýrrar eða mjög endurbættrar vöru, þjónustu eða ferils, nýrrar aðferðar til markaðssetningar eða nýrrar skipulagsaðferðar í viðskiptaháttum, skipulagi á vinnustað eða ytri samskiptum.
Alls bárust tólf umsóknir um nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 og lagði atvinnu- og nýsköpunarnefnd til við bæjarstjórn að Hildur Margrétardóttir, Ívar Zophanías Sigurðsson, Matthew Miller og Snorri Sigurðarson Hertervig hlytu styrk fyrir verkefnið Náttúrmeðferðarúrræði fyrir ungmenni sem eiga við fjölþættan vanda að stríða.
Verkefnið er heildræn meðferðarsýn þar sem útivera, sagnahefðir, og þær áskoranir sem hópurinn tekst á við, líkamlega og andlega, leggja grunninn að samtali ungmennis við jafningja og leiðbeinendur með sjálfsuppbyggingu að leiðarljósi. Markmið úrræðisins er að rjúfa einangrun og styrkja heilbrigða sjálfsmynd ungmenna en sú aðferð að nota útivist og náttúrumeðferð til að tengja ungmenni við innri og ytri áhrifaþætti er ný af nálinni.
Aðstandendur verkefnisins og starfsstöð eru í Mosfellsbæ og stefnt er að því að fyrsta námskeiðið verði fyrir mosfellsk ungmenni.
Efri mynd: Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Sævar Birgisson formaður atvinnu- og nýsköpunarnefndar og Ólafur Ingi Óskarsson formaður velferðarnefndar ásamt styrkþegum.
Neðri mynd: Snorri Sigurðarson Hertervig, Hildur Margrétardóttir, Matthew Miller og Ívar Zophanías Sigurðsson.
Tengt efni
Styrkir til verkefna á sviði velferðarmála fyrir árið 2025
Umsókn um styrk til náms, verkfæra- og tækjakaupa 2024
Umsóknarfrestur er til og með 20. október 2024.
Erna Sóley afreksíþróttamaður 2024