Vefurinn er byggður upp með það að markmiði að auðvelda notendum aðgang að hvaða upplýsingum sem leitað er af. Tekin hefur verið í notkun öflug leitarvél sem leita mun jafnt í efni vefjarins sem og fundargerðum nefnda Mosfellsbæjar.
Bryddað hefur verið upp á ýmsum nýjungum, einnig til þess að bæta aðgengi notenda að upplýsingum og að efla samskipti milli íbúa og stjórnsýslunnar. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, býður Mosfellingum og öðrum áhugasömum til að mynda í netspjall á þriðjudögum kl. 11:00 – 12:00. Einnig mun nýr þjónustufulltrúi, Salka, svara spurningum vefnotenda. Verið er að leggja lokahönd á smíði Sölku og verður hún vonandi tilbúin til að svara spurningum innan fárra daga.
Vefurinn hefur verið smíðaður frá grunni með það fyrir augum að auðvelda aðgengi fatlaðra að vefnum og verður hann læsilegur í skjálesurum. Öll viðmið við smíði vefjarins tóku mið af hæstu aðgengisvottun sem hægt er að ná samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Enn er þó eftir að fínpússa ýmis atriði vefjarins og eru notendur beðnir um að sýna þolinmæði á meðan svo er. Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda á mos[hja]mos.is.
Til hamingju með nýjan vef Mosfellingar.