Með breytingum á gjaldskrá Strætó bs. sem tekur gildi 1. mars verða þessar breytingar helstar:
- Ný nemakort Strætó miða að því að auka þægindi og lækka kostnað barnafjölskyldna.
- Sérstök nemakort fyrir 6-11 ára og 12-17 ára verða tekin upp.
- Ný gjaldskrá Strætó tekur gildi í stað gjaldskrár frá árinu 2012.
- Verð hækkar til að mæta meiri kostnaði, m.a. vegna aukinnar þjónustu.
Ný gjaldskrá mun taka gildi fyrir þjónustu strætisvagna Strætó bs. þann 1. mars og tekur hún við af gjaldskrá sem gilt hefur frá 1. desember 2012.
Samhliða verða tekin upp ný nemakort fyrir börn, 6 til 11 ára og 12 til 17 ára, sem miða að því að auka þægindi og lækka kostnað barnafjölskyldna sem nýta sér þjónustu Strætó.
Nemakort verða í boði fyrir þrjá aldursflokka og gilda í eitt ár frá útgáfu, en hingað til hefur aðeins einn flokkur verið í boði. Nemakort fyrir 18 ára og eldri mun kosta 46.700 kr., 12-17 ára 19.900 kr. og 6-11 ára 7.900 kr. Þetta þýðir að fyrir barn á aldrinum 6 til 11 ára, sem fer 16 ferðir á mánuði, kostar strætóferðin 41 krónu en 104 krónur fyrir 12 til 17 ára námsmenn. Nýju nemakortin koma því barnafjölskyldum vel fjárhagslega auk þess sem aukin þægindi felast í því að geta keypt kort til eins árs í stað afsláttarfarmiða með takmörkuðum fjölda ferða. Kortin veita aðgang að strætisvögnum Strætó á gjaldsvæði 1 og er hægt að kaupa þau á vef Strætó og fá þau send heim.